Fórnarlamba hamfaranna við Indlandshaf minnst víða um heim

Indversk stúlka sem missti foreldra sína í hamförunum grætur við …
Indversk stúlka sem missti foreldra sína í hamförunum grætur við minningarathöfn í Indlandi í morgun. Reuters

Í dag er þess minnst að eitt ár er liðið frá því að um 210 þúsund manns létu lífið af völdum flóðbylgna úr Indlandshafi sem mynduðust í kjölfar gríðarlegs jarðskjálfta. Héraðið Aceh í Indónesíu varð verst úti þar sem það stóð næst skjálftamiðjunni og létust tvö af hverjum þremur fórnarlömbum flóðbylgnanna þar. Hinna látnu var minnst með mínútuþögn í höfuðstað héraðsins, Banda Aceh, á sama tíma í morgun og fyrstu flóðbylgjurnar skullu á ströndum þess fyrir ári síðan. Þá hljómaði viðvörunarsírena sem er hluti af nýju flóðavarnakerfi á Indónesíu. Mikil endurreisn fer nú fram í héraðinu en það mun taka mörg ár að koma þar öllu í fyrra ástand.

Tugþúsundir eftirlifenda flóðbylgnanna búa enn í tjöldum og er talið að byggja þurfi í það minnsta 80 þúsund hús handa þeim. Forseti Indónesíu, Susilo Bambang Yudhoyono, sagði þá minna fólk á að lífið væri þess virði að berjast fyrir því. Um 130.000 manns dóu í Aceh af völdum flóðbylgnanna. Þar af hafa 37.000 ekki enn fundist.

Á eyjunni Sri Lanka var þeirra 30 þúsunda sem þar létust minnst í morgun í fjölda smærri minningarathafna. Forseti og aðrir háttsettir embættismenn, innlendir sem erlendir, minntust hinna látnu með tveggja mínútna þögn, á táknrænum stað þar sem flóðbylgja skall á lest með þeim afleiðingum að þúsund menn létust. Lestarteinarnir hafa verið lagðir þar að nýju og lestarferðir hafnar meðfram ströndinni.

Í Taílandi týndu 5000 lífi og voru þar fjórir af hverjum tíu erlendir ferðamenn. Hinna látnu var minnst við Khao Lak ströndina í suðri og voru þar Taílendingar og útlendingar saman komnir í dag. Pigge Werkelin, sænskur maður sem lifði hamfarirnar af, missti tvo syni sína og eiginkonu þegar flóðbylgja skall á Khao Lak. „Ég held að maður verði að snúa aftur,“ sagði Werkelin í samtali við fréttastofuna Reuters. „Maður verður að fara að ströndinni, sjá börn á ströndinni, maður verður að sjá allt ... ég verð að gera þetta og síðan reyna að gleyma því.“

Um ein og hálf milljón manna varð heimilislaus á hamfarasvæðunum og er talið að það taki fimm til tíu ár að endurbyggja svæðin að fullu. Sameinuðu þjóðirnar segja alþjóðlegu neyðaraðstoðina sem fylgdi í kjölfarið vera þá hröðustu og mestu í mannkynssögunni. Talið er að 12 milljarðar bandaríkjadala, um 765 milljarðar króna, hafi safnast og neyðaraðstoðin er talin hafa verið prófsteinn fyrir alþjóðleg viðbrögð við svo miklum náttúruhamförum.

Minningarathafnir verða haldnar víða um Evrópu í dag, m.a. í Svíþjóð, Danmörku, Noregi, Finnlandi, Þýskalandi og Belgíu en fjöldi evrópskra ferðamanna lést í hamförunum. Fréttavefur BBC greindi frá þessu en auk þess var stuðst við fréttastofuna AP.

Þýsk kona huggar dóttur sína eftir að hafa lagt blóm …
Þýsk kona huggar dóttur sína eftir að hafa lagt blóm til minningar um foreldra sína og frænda sem létust í flóðunum við Khao Lak í Taílandi. Reuters
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert