Þýska mannætan fundin sek um morð

Arvmin Meiwes.
Arvmin Meiwes. AP

Þjóðverji, sem viðurkenndi að hafa myrt mann, sem hann kynntist á netinu og lagt sér hluta af honum til munns, hefur verið fundinn sekur um morð. Maðurinn var áður fundinn sekur um manndráp, en þýskir saksóknarar kröfðust þess að réttað yrði í málinu að nýju.

Armin Meiwes, sem er 44 ára, var einnig fundinn sekur um óviðurkvæmilega meðferð á líki og dæmdur í ævilangt fangelsi. Lögmenn Meiwes höfðu krafist þess að hann yrði sakfelldur fyrir að valda dauða að kröfu annars, en við því liggur 5 ára fangelsi.

Meiwes lýsti fyrir réttinum hvernig hann varð Bernd Juergen Brandes að bana í mars árið 2001 í bænum Rotenburg. Meiwes sagði að Brandes hefði komið frá Berlín eftir að hafa svarað auglýsingu frá sér á netinu, en þar lýsti Meiwes eftir ungum manni, sem væri reiðubúinn að láta drepa sig og borða.

Meiwes sagðist hafa þráð að éta einhvern, sem þannig yrði hluti af sér. Eftir að þeir Meiwes og Brandes hittust höfðu þeir kynmök og síðan stakk Meiwes Brandes til bana, hlutaði líkið sundur og frysti hluta þess og át síðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert