Handtóku fleiri hundruð barnaníðinga

Notendur fóru inn á Playpen í gegnum Tor-hugbúnaðinn. Á Playpen …
Notendur fóru inn á Playpen í gegnum Tor-hugbúnaðinn. Á Playpen gátu þeir átt í margvíslegum viðskiptum með myndir sem sýndu börn beitt kynferðislegu ofbeldi. Fórnarlömbin eru allt niður í ungabörn. mbl.is/Árni Sæberg

Yfir 280 Bretar sem eru grunaðir um barnaníð hafa verið handteknir að undanförnu en um er að ræða umfangsmikla alþjóðlega aðgerð gegn barnaníði á huldunetinu (darknet). Samkvæmt frétt Times var umað ræða samstarfsverkefni bresku lögreglunnar (National Crime Agency), bandarísku alríkislögreglunnar og Europol. Alls hafa um eitt þúsund einstaklingar verið handteknir í tengslum við rannsókn á málinu. 

Bandaríska alríkislögreglan náði að brjóta sér leið inn í einn helsta vettvang barnaníðinga í heiminum á huldunetinu, Playpen. 

Playpen-vefurinn var rekinn í gegnum nafnlausa netvafra en þar var um 150 þúsund félögum veittur aðgangur að barnaníði í „öruggu skjóli“. Þar gátu þeir horft á og átt í viðskiptum með myndir af barnaníði. 

Félagar notuðu hugbúnað sem nefnist Tor og gátu þannig hulið hverjir þeir væru og átt í viðskiptum með barnaníð án afskipta. Talið er að þarna hafi farið fram viðskipti með tugi þúsunda mynda af misnotkun og ofbeldi gagnvart börnum.

Steven Chase, 58 ára gamall stjórnandi Playpen í Bandaríkjunum, var í síðustu viku dæmdur í 30 ára fangelsi fyrir reksturinn á Playpen. Við húsleit á heimili hans fundust tölvur með þúsundum mynda af börnum beittum kynferðislegu ofbeldi. Börnin eru á öllum aldri – allt frá nokkurra mánaða aldri. 

Samkvæmt Times óttast lögreglan að barnaníðingar hafi komið sér í skjól á huldunetinu þar sem hægt er að skrá sig án þess að gefa upplýsingar um hver viðkomandi er.

Richard Huckle, þrítugur Breti sem var dæmdur í 25 ára fangelsi í fyrra fyrir að hafa beitt hundruð barna kynferðislegu ofbeldi, er einn þeirra sem var nánast daglegur gestur á Playpen.

Meðal annarra barnaníðsíðna á huldunetinu er síða sem nefnist Lolita City en þangað hafa hundruð þúsunda einstaklinga leitað.

Með því að beita aðferðum tölvuþrjóta tókst FBI að brjótast inn á Playpen í febrúar 2015 og stjórna síðunni í 13 daga. Á þeim tíma söfnuðu þeir fjölmörgum IP-tölum og öðrum upplýsingum um þúsundir notenda. Á grundvelli þessara upplýsinga voru 350 notendur í Bandaríkjunum handteknir, þar á meðal 51 stórnotandi, samkvæmt upplýsingum frá bandaríska dómsmálaráðuneytinu.

Upplýsingarnar hafa leitt til þess að 520 til viðbótar hafa verið handteknir víða um heim og kennsl borin á 186 börn sem eru fórnarlömb kynferðislegs ofbeldis. Bretar voru stórnotendur og alls hafa 280 verið handteknir í tengslum við rannsóknina. 140 börnum hefur verið komið í skjól í tengslum við handtökur í Bretlandi. 

FBI var gagnrýnt fyrir að reka vefinn í tæpar tvær vikur eftir að lögreglufulltrúum tókst að brjóta sér leið þangað inn. Því á sama tíma og FBI rak vefinn og safnaði saman upplýsingum voru um 200 myndskeið, 9 þúsund myndir og 13 þúsund tenglar á barnaníð birt á Playpen. Telja ýmsir að FBI hafi í raun framið lögbrot með því að reka vefinn þennan tíma. 

Frétt Times

Frétt Metro

Frétt Newsweek

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert