Nefnd skipuð vegna kynferðisbrota í bíóbransa

Franska leikkonan Judith Godreche.
Franska leikkonan Judith Godreche. AFP/Dimitar Dilkoff

Franska þingið samþykkti í morgun að mynda sérstaka nefnd sem á að rannsaka kynferðislega misnotkun og árásir í kvikmyndabransanum og öðrum menningargeirum eftir þó nokkrar ásakanir sem hafa litið dagsins ljós að undanförnu.

Neðri deild þingsins samþykkti einróma tillögu sem var lögð fram af leikkonunni Judith Godreche.

Hún hefur sakað leikstjórana Benoit Jacquot og Jacques Doillon um að hafa brotið á sér kynferðislega þegar hún var unglingur.

Þeir hafa báðir neitar ásökununum.

Benoit Jacquot á kvikmyndahátíðinni í Berlín árið 2018.
Benoit Jacquot á kvikmyndahátíðinni í Berlín árið 2018. AFP/Tobias Schwarz

Önnur frönsk leikkona, Isild Le Besco, sakaði Jacquot um nauðgun þegar hún var á unglingsaldri í sjálfsævisögu sem kom út í gær. Þar sagðist hún þó ekki vera tilbúin til að leggja fram kæru að svo stöddu.

Le Besco, 41 árs, sakaði Jacquot um að hafa haft á henni tangarhald á meðan á sambandi þeirra stóð. Það hófst þegar hún var aðeins 16 ára og hann 52.

Hún sagðist hafa verið beitt „andlegu og líkamlegu ofbeldi” af Jacquot. Leikstjórinn hefur vísað ásökununum á bug.

Steig fram eftir ásökun Godreche

Le Besco steig fram eftir að Judith Godreche, 52 ára, sakaði Jacquot um nauðgun á meðan á sambandi þeirra stóð. Það hófst þegar hún var 14 ára og hann 25 árum eldri. Hann hefur einnig neitað þeim ásökunum. Rannsókn á því máli stendur yfir.

Le Besco, sem lék í kvikmynd Jacquot, Sade, þegar hún var 16 ára, sagði í bók sinni Dire vrai: „Að segja að Benoit hafi nauðgað mér er augljóst mál…Ég var unglingur og ég veitti honum allt mitt traust. Hann gerðist faðir minn, móðir og táknmynd yfirvalds. Með það í huga var nauðgunin einnig sifjaspell,” sagði hún.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert