Southampton mætir Leeds á Wembley

Adam Armstrong skoraði tvívegis fyrir Southampton í kvöld.
Adam Armstrong skoraði tvívegis fyrir Southampton í kvöld. AFP

Southampton bar í kvöld sigurorð af West Bromwich Albion, 3:1, í síðari leik liðanna í undanúrslitum umspils um laust sæti í ensku úrvalsdeildinni á næsta tímabili.

Fyrri leiknum lauk með markalausu jafntefli og vann Southampton því einvígið samanlagt 3:1.

Southampton mætir Leeds United í úrslitaleik um sæti í úrvalsdeildinni á Wembley þann 26. maí.

Bæði þessi lið féllu úr úrvalsdeildinni á síðasta tímabili og höfnuðu í þriðja og fjórða sæti í B-deildinni, þar sem Leeds vann sér inn 90 stig og Southampton 87 stig.

Armstrong með tvennu

Eftir markalausan fyrri hálfleik sýndu Dýrlingarnir mátt sinn og megin í síðari hálfleik.

William Smallbone braut ísinn snemma í hálfleinum, á 49. mínútu, áður en Adam Armstrong tvöfaldaði forystuna á 78. mínútu.

Southampton fékk dæmda vítaspyrnu nokkrum mínútum fyrir leikslok þegar Ryan Manning var felldur innan teigs.

Armstrong steig á vítapunktinn, skoraði á 86. mínútu og staðan orðin 3:0.

Undir blálokin skoraði Cédric Kipre sárabótamark fyrir WBA en þar við sat.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert