Vilja að herinn leiti að 8 ára dreng

Leit að Gabriel hefur staðið yfir frá því á þriðjudag.
Leit að Gabriel hefur staðið yfir frá því á þriðjudag. Ljósmynd/Twitter

Leit að 8 ára spænskum dreng, Gabriel Cruz, sem ekkert hefur spurst til frá því á þriðjudag, hefur enn engan árangur borið. Um 1.000 manns hafa tekið þátt í leitinni og nú hafa tæplega 65.000 manns skrifað undir áskorun þess efnis að herinn verði kallaður út til að aðstoða við leitina.

Frétt mbl.is: Víðtæk leit að týndum dreng

Gabriel fór frá heimili ömmu sinnar og afa í þorpinu As Hortichuelas á þriðjudag og ætlaði að heimsækja vin sinn. Hann skilaði sér hins vegar aldrei þangað. Lögreglumenn, slökkviliðsmenn og sjálfboðaliðar hafa þrætt þorpið og nágrenni þess á suðausturhluta Spánar. Þyrlar og drónar hafa einnig verið notuð við leitina.

Juan Ignacio Zoido, innanríkisráðherra Spánar, segir í færslu á Twitter að einnig sé leitað í nærliggjandi vötnum og meðfram strandlengjunni. 

Einn angi málsins hefur vakið sérstaka athygli. Í upphafi var talið mögulegt að maður sem ofsótti móður Gabriels gæti tengst málinu. Móðirin fékk nálgunarbann á manninn, Diego Miguel, sem hann braut stuttu áður en Cruz hvarf. Maðurinn hefur verið handtekinn fyrir að brjóta nálgunarbannið en lögreglan hefur ekki staðfest að hann tengist hvarfi Gabriels.

Víðtæk leit stendur yfir á Suðaustur-Spáni af Gabriel Cruz, 8 …
Víðtæk leit stendur yfir á Suðaustur-Spáni af Gabriel Cruz, 8 ára spænskum dreng, sem ekkert hefur spurst til síðan á þriðjudag. AFP

Leitin að Gabriel hefur vakið mikla athygli á Spáni og krefst almenningur að aukinn þungi verði færður í leitina. Í undirskriftasöfnuninni er einnig skorað á stjórnvöld að skoða myndefni úr öllum eftirlitsmyndavélum við hraðbrautir í nágrenni staðarins þar sem síðast sást til Gabriels.

Foreldrar Gabriels hafa stigið fram í fjölmiðlum með tár á hvarmi þar sem þau segjast vongóð um að hann komi í leitirnar bráðum og sameinist fjölskyldunni á ný. „Þar á átta ára strákur að vera, heima,“ segir Angel Cruz, faðir Gabriels.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka