Hafnaði 400 milljón króna bónus

Vél Alaska Airlines.
Vél Alaska Airlines. Mario Tama/Getty Images/AFP

David Calhoun, forstjóri Boeing, fékk 33 milljónir dala í bætur fyrir árið 2023 en hafnaði 2,8 milljón dala bónus, tæplega 400 milljónum króna, í kjölfar flugatviks sem varð hjá Alaska Airlines í janúar.

AFP greinir frá og segir þetta hafa komið fram í tilkynningu sem fyrirtækið birti í gær. 

Stjórnin varð við beiðninni

Calhoun, sem á að hætta sem forstjóri í lok árs, fékk grunnlaun upp á 1,4 milljónir dala auk þess að fá yfir 30 milljónir dala í hlutabréfum.

Fyrirtækið stendur frammi fyrir mikilli athugun vegna atviksins þann 5. janúar, þar sem 737 MAX 9 neyddist til að nauðlenda eftir að gat kom á skrokk vélarinnar. 

„Í kjölfar slyssins í Alaska Airlines neitaði herra Calhoun að taka við árlegum bónus sínum og stjórnin varð við þeirri beiðni,“ segir í tilkynningunni.

Alltaf lagt áherslu á öryggi og gæði

Til útskýringar á bótum Calhoun sagði Boeing að ráðning hans sem forstjóra hafi gengið í gegn í janúar 2020 þegar fyrirtækið stóð frammi fyrir einni alvarlegustu áskoruninni í langri sögu fyrirtækisins. Var þar vísað til þess þegar 737 MAX voru kyrrsettar eftir tvö banaslys.

Því hafi svo fljótlega fylgt Covid-19 heimsfaraldurinn sem leiddi til mikillar niðursveiflu í flugi.

„Allan tíma hans í starfi hefur hann lagt áherslu á öryggi og gæði og krafist gagnsæis innan fyrirtækisins og við viðskiptavini okkar, eftirlitsaðila og almenning. Hann hefur einnig tekið ýmsar ákvarðanir sem að mati stjórnar voru í þágu Boeing til lengri tíma litið, jafnvel þótt þær væru á kostnað þess að ná fjárhagslegum eða rekstrarlegum markmiðum til skamms tíma.“

Bónusinn lækkaður

Segir jafnframt í tilkynningunni að þó flugatvikið hjá Alaska Airlines sýni að Boeing eigi mikið verk óunnið, telji stjórnin að Calhoun hafi brugðist við þessum atburði á réttan hátt með því að taka ábyrgð á slysinu, eiga gagnsæ og fyrirbyggjandi samskipti við eftirlitsaðila og viðskiptavini auk þess að taka mikilvæg skref til að styrkja og tryggja gæði Boeing.

Í kjölfar þess að Calhoun þáði ekki bónus fyrir árið 2023 breytti Boeing hvatakerfi sínu fyrir árið 2024 til að taka tillit til atviksins hjá Alaska Airlines.

Hafa bónusgreiðslur forstjóra fyrir árið 2024 verið lækkaðar um 38%, í 17 milljónir dala, samhliða lækkun á hlutabréfum Boeing.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert