Þjóðarsorg á Kúbu

Þjóðarsorg hefur verið lýst yfir á Kúbu eftir að flugvél hrapaði skömmu eftir flugtak frá Jose Marti-flugvellinum í Havana. Um borð voru 110 og nú ljóst að 107 þeirra létust í slysinu.

 Miguel Diaz-Canel, forseti Kúbu, segir að rannsókn á slysinu sé hafin en vélin var af gerðinni Boeing 737 og rétt tæplega fjörutíu ára gömul. Hún var í eigu mexíkósks flugfélags en hafði verið tekin á leigu af ríkisflugfélagi Kúbu, Cubana de Aviacion. 

Aðeins þrír komust lífs af og voru þeir dregnir út úr flakinu. 

Vélin hrapaði á akur í nágrenni flugfélagsins og í kjölfarið steig þykkur reykjarmökkur til himins. 

Þjóðarsorg hefur verið lýst yfir frá því klukkan 10 í dag að íslenskum tíma og til miðnættis á morgun, sunnudag að því er Raul Castro, formaður Kommúnistaflokksins og fyrrverandi forseti segir. Flaggað verður í hálfa stöng vítt og breytt um eyjuna. 

Vélin var á leið frá Havana til borgarinnar Holguin sem er á austurhluta Kúbu. Flestir um borð voru Kúbverjar. Fimm útlendingar voru meðal farþega, m.a. tveir Argentínumenn.

Farþegarnir voru 104 og átta manns voru í áhöfn, allt Mexíkóar. Vélin nær gjöreyðilagðist í brotlendingunni og eldsvoðanum sem henni fylgdi. 

Svo virðist sem annar vængur vélarinnar hafi rekist í tré.

Vélin var smíðuð árið 1979 og á leigu frá mexíkóska flugfélaginu Global Air. 

„Okkur var öllum brugðið“

Diaz-Canel tók við sem forseti Kúbu í síðasta mánuði. Hann var sleginn er hann mætti á slysstað til að fylgjast með björgunaraðgerðum. 

„Ég sá vélina taka á loft. Allt í einu þá beygði hún og hrapaði. Okkur var öllum brugðið,“ segir Jose Luis sem vinnur í matvörubúð skammt frá flugvellinum.

 Yasniel Diaz segir að svo virtist sem að vélin ætlaði að reyna nauðlendingu en hafi þá hrapað. „Sprengingin skók allt,“ segir hann. „Ég tók til fótanna, ég var svo hræddur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert