Útlit fyrir sigur hægrimanna

Janez Jansa, fyrrverandi forsætisráðherra Slóveníu, og eiginkona hans Urska Bacovnik.
Janez Jansa, fyrrverandi forsætisráðherra Slóveníu, og eiginkona hans Urska Bacovnik. AFP

Kannanir benda til þess að hægrimenn sigri í þingkosningunum í Slóveníu sem fara fram í dag. Janez Jansa, forsætisráðherra Slóveníu árin 2004 til 2008 og 2012 til 2013, og Demókrataflokkur hans mælist með 25 prósenta fylgi í skoðanakönnunum, um tvöfalt stærri en næsti flokkur á eftir. 1,7 milljón manna er á kjörskrá og þingsætin eru 90 talsins.

Undanfarin fjögur ár hefur verið miðju-vinstristjórn í landinu og fór kjörsókn betur af stað í morgun en fyrir fjórum árum. SMC-flokkur fráfarandi forsætisráðherra landsins, Miro Cerar, sem sagði af sér og boðaði til kosninga í mars sl. eftir röð verkfalla í opinbera geira landsins og harðra átaka mælist með 9,3 prósenta fylgi.

Í frétt AFP um málið segir að það gæti þó reynst erfitt fyrir Jansa að mynda meirihluta þrátt fyrir að flokkur hans hljóti flest atkvæða þar sem núverandi stjórnarflokkarnir þrír; Sósíaldemókratar, SMC og DESUS, hafa útilokað samstarf við flokkinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert