Forseti Venesúela slapp undan drónaárás

Nicolas Maduro, forseti Venesúela.
Nicolas Maduro, forseti Venesúela. AFP

Sprenging varð þegar Nicolas Maduro, forseti Venesúela, hélt ræðu á afmælisviðburði á vegum hersins í gærkvöldi. Sprengiefni var komið fyrir í tveimur drónum sem flugu yfir svæðið.

Madura slapp ómeiddur frá tilræðinu en sjö hermenn særðust. Ræðan var sýnd í beinni útsendingu í sjónvarpi og þar má sjá þegar forsetinn lítur skyndilega upp og er augljóslega brugðið. Stuttu síðar heyrist sprenging.

Jorge Rodriguez, samskiptaráðherra Venesúela, segir að um sé að ræða augljósa tilraun til að ráða Maduro af dögum. Maduro kenndi í fyrstu yfirvöldum í Kólumbíu um árásina og að hún hafi verið fjármögnuð af ónefndum aðilum í Bandaríkjunum. Yfirvöld í Kólumbíu þvertaka fyrir að bera ábyrgð á árásinni.

Hópur uppreisnarmanna sem kallar sig „National Movement of Soldiers in Shirts“ hefur lýst yfir ábyrgð á árásinni. Hópurinn birti yfirlýsingu á samfélagsmiðlum og þar segir að sprengjunni hafi verið varpað vegna þess hve illa stjórn forsetans hefur staðið sig í að bæta kjör íbúa í Venesúela.

Að sögn yfirvalda í Venesúela hafa nokkrir verið handteknir vegna árásarinnar en ekki er ljóst hvort uppreisnarhópurinn beri ábyrgð á árásinni í raun og veru.

Hermenn og aðrir gestir tóku til fótanna þegar drónar með …
Hermenn og aðrir gestir tóku til fótanna þegar drónar með sprengiefni flugu yfir hátíðarsvæðið. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert