Vill verða borgarstjóri Barcelona

Manuel Valls, fyrrverandi forsætisráðherra Frakklands, tilkynnti í dag að hann hefði í hyggju að bjóða sig fram til borgarstjóraembættis Barcelona-borgar á Spáni.

Haft er eftir Valls í frétt AFP að ákvörðunin sé niðurstaða mikillar íhugunar, en hann fæddist í borginni fyrir 56 árum þegar foreldrar hans voru þar í sumarleyfi. Faðir hans var spænskur en móðir hans af svissneskum og ítölskum uppruna. 

Valls segir einnig að frá fæðingu hafi tenging hans við Barcelona, heimaborg föður hans, verið sterk og viðvarandi. Hann ólst upp í París, höfuðborg Frakklands, hjá foreldrum sínum og varð franskur ríkisborgari þegar hann var tvítugur. 

Samkvæmt reglum Evrópusambandsins geta borgarar sambandsins kosið og boðið sig fram í sveitarstjórnarkosningum í öðrum ríkjum þess en þeim sem þeir eru frá. Hins vegar er talið að Valls eigi á brattann að sækja gagnvart sitjandi borgarstjóra Ada Colau.

Kosningarnar fara fram 26. maí á næsta ári.

Manuel Valls tilkynnir framboð sitt í dag.
Manuel Valls tilkynnir framboð sitt í dag. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert