Aurskriður einangra þorp í óveðrinu

Fjallshlíð í nágrenni þorpsins Belluno í Dólómítunum gaf sig og …
Fjallshlíð í nágrenni þorpsins Belluno í Dólómítunum gaf sig og tugþúsundir trjáa féllu. AFP

Fimm manns fórust í gær í óveðri á Ítalíu og er tala látinna þessa vikuna af völdum veðursins þá komin upp í 17. Greint var frá því fyrr í vikunni að tólf hefðu farist í óveðrinu og má reka mörg dauðsfallanna til þess að tré hafa fallið í veðurofsanum.

Aurskriður hafa lokað aðkomu af þorpum og vegum og er ástandið verst á norðurhluta Ítalíu, sérstaklega í Trentino og Veneto en þar var skólum lokað.

17 manns hafa nú farist í óveðrinu sem verið hefur …
17 manns hafa nú farist í óveðrinu sem verið hefur á Ítalíu. Þessi mynd frá ítalsa slökkviliðinu og neyðarþjónustunni sýna hvernig skógar hafa fallið í Dólómítunum. AFP

BBC segir aurskriðu hafa lokað einni helstu ökuleið um ítölsku Dólómítafjöllin, eftir að sögufrægur greniskógur varð vindhviðunum að bráð.

Skemmdir á vegum voru einna verstar í nágrenni þorpsins Belluno, en þar hefur vatnsverður undanfarinna fimm daga losað um leðju og grjót.

Vindhviður sem náðu allt að 120 km/klst hraða feldu tugir þúsunda trjáa í Fiemme dalnum, en það er einmitt dalurinn þar sem fiðlusmiðurinn Antonio Stradivarius leitaði efniviðar í fiðlur sínar á 18. öldinni.

Tré lágu eins og hráviður í dalnum og segir BBC vindinn hafa fellt fleiri tré á nokkrum klukkutímum, en skógarhöggsmenn í nágrenninu hefðu getað fellt á þremur árum.

Maður eys vatni út á götur í Feneyjum, en þar …
Maður eys vatni út á götur í Feneyjum, en þar hefur flóðavatn náði sögulegu hámarki. AFP

Tugir þúsunda voru í dag án rafmagns. „Við erum aðframkomin,“ sagði Luca Zaia, sveitastjóri Veneto. „Ef ekki er gripið inn í hratt með neyðarfjármagni þá munu dalir okkar tæmast af því að hér verður engin almannaþjónusta.“

Greint var frá því í gær að fjórir hefðu farist af völdum veðursins á norðurhluta Ítalíu, þeirra á meðal voru maður og kona sem fengu tré ofan á bíl sinn. Þá lést einn í bílslysi í Róm sem rekja má til úrhellisrigningar. Loka þurfti nokkrum neðanjarðarlestarstöðvum í borginni af völdum rigninganna.

Tré hafa víða látið undan veðrinu og hér olli eitt …
Tré hafa víða látið undan veðrinu og hér olli eitt slíkt skemmdum á bíl í Róm. AFP

Sjávarþorpið Portofino á norðvesturströndinni hefur verið sambandslaust við umheiminn undanfarna daga vegna veðursins og allt suður að borginni Palermo á Sikiley má finna götur sem eru á kafi í flóðavatni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert