ESB samþykkir Brexit

AFP

Leiðtogar ríkja Evrópusambandsins hafa samþykkt Brexit-samkomulagið á fundi sem fór fram í Brussel í Belgíu. Donald Tusk, forseti leiðtogaráðs Evrópusambandsins, hefur greint opinberlega frá þessu. 

Leiðtogar aðildarríkjanna 27 samþykktu samkomulagið eftir umræður sem stóðu yfir í tæpa klukkustund. 

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, ásamt Donald Tusk, forseta ESB.
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, ásamt Donald Tusk, forseta ESB. AFP

Tusk gaf til kynna í gær að samningurinn myndi fá grænt ljós eftir að lending náðist með Spánverjum um Gíbraltar. 

Nú þarf Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, að fá breska þingið til að samþykkja útgöngusamninginn. En margir þingmenn, þar á meðal flokksmenn henner, eru honum mótfallnir. 

Tusk greindi frá niðurstöðunni í Brussel í dag á Twitter. 

Viðræður um útgöngu Breta úr Evrópusambandinu hafa staðið yfir í eitt og hálft ár eftir að breska þjóðin samþykkti í þjóðaratkvæðagreiðslu að segja skilið við ESB.  

Til stendur að Bretland muni formlega ganga úr ESB 29. mars 2019. 

Búist er við að breska þingið muni greiða atkvæði um samkomulagið snemma í næsta mánuði, en óvíst er hvort málið njóti nægilega mikils stuðnings. Þingmenn, þvert á flokka, hafa lýst yfir andstöðu við samkomulagið. 

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, hefur hvatt breskan almenning til að fylkja liði og styðja samkomulagið. May heldur því fram að ekki sé hægt að ná betri samningi og að hún muni virða niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar um Brexit. 

Leiðtogar ESB hafa samþykkt tvö lykilgögn varðandi útgönguna. Í fyrsta lagi samninginn um útgöngu Breta úr ESB sem telur 585 blaðsíður og er lagalega bindandi. Þar eru skilyrði útgöngunnar útlistuð, m.a. farið yfir svokallaðan „skilnaðarreikning“ sem nemur 39 milljörðum punda. 

Í öðru lagi samþykktu leiðtogar ESB pólitíska yfirlýsingu sem fjallar um það hvernig samskiptum Breta og ESB verði mögulega hagað í framtíðinni. Þar er m.a. farið yfir hvernig viðskiptum verður háttað sem og öryggismál. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert