„Galdranornir“ látnar lausar

AFP

Tvær indóneskísar konur sem hafa setið á dauðadeild í tíu ár í Sádi-Arabíu hafa verið látnar lausar eftir að refsing þeirra var milduð. Konurnar, sem störfuðu við heimilishjálp voru dæmdar til dauða árið 2009 fyrir að hafa beitt göldrum á fjölskyldurnar sem þær störfuðu hjá.

Samkvæmt upplýsingum frá indónesíska utanríkisráðuneytinu komu þær Sumartini og Warnah til Jakarta í dag. Refsing þeirra var milduð fyrr á árinu í kjölfar langra og strangra samningaviðræðna milli ríkjanna tveggja.

Fá ríki í heiminum beita dauðarefsingum jafn oft og Sádi-Arabía en þeir sem eru dæmdir fyrir hryðjuverk, morð, nauðganir, vopnað rán og fíkniefnasmygl eiga yfir höfði sér dauðadóm þar í landi. Í gær voru 37 sjítar teknir af lífi á grundvelli hryðjuverkalaga. En það sem af er ári hafa yfir 100 fangar verið teknir af lífi í Sádi-Arabíu, samkvæmt upplýsingum frá fréttastofu landsins. 

Trúarlögregla landsins gengur hart fram gegn þeim sem brjóta gegn saría-lögum, þar á meðal fólk sem er grunað um galdra. 

Sumartini var sökuð um að hafa látið 17 ára gamlan son vinnuveitenda sinna hverfa með svartagaldri og skipti þar engu að hann fannst síðar á lífi.

Warnah var hins vegar sökuð um að hafa hneppt fyrstu eiginkonu vinnuveitanda síns í álög með þeim afleiðingum að hún þjáðist af dularfullum sjúkdómi.

Indónesískir aðgerðarsinnar hafa árum saman reynt að fá konurnar lausar úr haldi. Stjórnvöld í Indónesíu lögðu fram formlega kvörtun í fyrra eftir að indónesísk kona var tekin af lífi án vitneskju fjölskyldu eða starfsfólks sendiráðs landsins. Hún var dæmd til dauða fyrir að hafa drepið vinnuveitanda sinn en hún sagði að um sjálfsvörn hafi verið að ræða þegar hann reyndi að nauðga henni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert