Dimmt ský hangir yfir Everest

Ellefu manns hafa látist á Everest, hæsta fjalli heims, það sem af er þessu tímabili. Aldrei fleiri hafa látist í þessari erfiðu fjallgöngu en á sama tíma er útlit fyrir að metfjöldi hafi komist upp á toppinn í ár.

Fjölmargir göngugarpar eru sagðir illa búnir og hvorki með nægjanlega reynslu né í nógu góðu formi til að takast á við þetta krefjandi verkefni. Einnig er bent á að leiðsögumenn séu með litla reynslu.

Í ár hafa aðstæður verið erfiðar því veðurglugginn hefur verið stuttur og því mynduðust raðir upp á topp. Einungis sex daga var fært á toppinn. Til samanburðar voru dagarnir 11 í fyrra. Þetta hefur vakið upp ótal spurningar og eru yfirvöld í Nepal gagnrýnd fyrir að veita nánast öllum þeim sem þess óska leyfi til að komast upp á topp að því gefnu að göngufólk greiði uppsett verð.

Yf­ir­völd í Nepal hafa veitt 381 leyfi til upp­göngu á Ev­erest á þessu ári og kost­ar hvert þeirra 11 þúsund doll­ara, eða hátt í 1,4 millj­ón­ir króna. Auk þess voru veitt 140 leyfi til að komast upp norðurhlíðar fjallsins. Af þeim 11 sem létust voru tveir þeirra í norðurhlíð fjallsins. 

Fyrirkomulagið er til þess fallið að óreynt fólk freisti þess að komast á toppinn. Fyrir vikið stofnar það sínu eigin lífi og í leiðinni annarra í hættu.

Röðin á Everest kostaði nokkra lífið.
Röðin á Everest kostaði nokkra lífið. AFP

Ekki spurning um fjölda leyfa heldur getu göngumanna

Leiðsögumenn og göngugarpar eru ekki sammála um þær aðgerðir sem þyrfti að gripa til svo unnt væri að komast hjá því að jafn langar raðir mynduðust eins og raun ber vitni. Sumir benda á að laga þyrfti línurnar á gönguleiðinni mun fyrr svo hópar kæmust fyrr í hæðaraðlögun. Aðrir vilja takmarka fjölda göngumanna sem færi upp á hverjum tíma.

Damian Benegas sem hefur haft umsjón með leyfisveitingum á fjallið í rúma tvo áratugi segir að þetta hafi ekkert með fjölda leyfa að gera. Leyfin hafi ekkert með getu göngufólks að gera. „Leiðangursstjórar þurfa að gera ríkari kröfur til þeirra sem þeir taka með upp á fjallið,“ segir hann. 

Á síðustu tveimur áratugum hefur orðið sprenging í fjölda þeirra sem freista þess að komast á toppinn. Of fáir reyndir leiðsögumenn og sjerpar eru því starfandi sem verður til þess að óreyndir leiðsögumenn taka að sér að verkefnið gjarnan gegn lægra gjaldi.   

Röðin kostaði að minnsta kosti fjögur mannslíf

Biðin í röðinni er sögð hafa kostað að minnsta kosti fjögur mannslíf af þeim níu einstaklingum sem létust í suðurhlíðum fjallsins í ár. 

„Þar fengu flestir frostbit. Ástæðan er sú að fólk stendur kyrrt, líkaminn er ekki heitur og þér er kalt. Ég held að þrátt fyrir að þú eigir besta búnað í heimi þá held ég að ekkert, ekkert sem maðurinn hefur búið til geti sigrað náttúruna.“ Þetta segir Aditi Vaidya indverskur göngugarpur um biðina löngu. 

Hlauparar í hlíðum Everest.
Hlauparar í hlíðum Everest. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert