Skurðlæknir hélt dagbækur um barnaníð

Skurðlæknirinn hélt dagbók um gjörðir sínar og það hjálpaði lögreglu …
Skurðlæknirinn hélt dagbók um gjörðir sínar og það hjálpaði lögreglu að komast í samband við tæplega tvöhundruðu manns sem segja hann hafa brotið á sér. Myndin tengist fréttinni ekki beint. AFP

Franskur skurðlæknir á eftirlaunaaldri gæti hafa misnotað nærri tvöhundruð börn undanfarna þrjá áratugi, samkvæmt saksóknurum þar í landi, sem annast nú rannsókn á því sem gæti mögulega orðið stærsta barnaníðsmál sem upp hefur komið í Frakklandi, samkvæmt frétt frönsku AFP-fréttastofunnar.

Skurðlæknirinn, Joël Le Scouarnec, fer fyrir dóm í mars n.k. í máli sem snýst um meint kynferðisofbeldi hans gagnvart dóttur nágranna hans, sem var sex ára gömul árið 2017 er ásakanirnar á hendur lækninum komu fyrst fram. Við þau réttarhöld þarf hann einnig að svara fyrir meint kynferðisofbeldi gegn tveimur ungum ættingjum sínum og þá er hann sagður hafa misnotað einn ungan sjúkling kynferðislega, en þessar ásakanir komu fram í kjölfarið á þeirri fyrstu.

En málin gætu verið miklu mun fleiri og náð yfir þriggja áratuga skeið, að sögn rannsakenda, sem uppgötvuðu leynilegar dagbækur sem skurðlæknirinn hafði haldið. Í dagbókum sínum lýsti Le Scouarnec kynferðislegum athöfnum með fjölda barna. Hann nefndi börnin á nafn í frásögnum sínum, sem gerði rannsakendum kleift að hafa samband við meint fórnarlömb og athuga hvort læknirinn hefði níðst á þeim.

Alls huga 184 einstaklingar að málsókn

Saksóknarar hafa síðan opinberað að það virtist standast, í mjög mörgum tilfellum. Lauren Zuchowicz, saksóknari í borginni La Rochelle, sagði að rannsakendur hefðu reynt að setja sig í samband við 250 möguleg fórnarlömb læknisins og náð að ræða við 209, „sem mörg höfðu mjög nákvæmar minningar“ um meinta misnotkun.

Lögfræðingar skurðlæknisins hafa haldið því fram að dagbókarfærslur skjólstæðings þeirra hafi verið „fantasíur“, en alls hafa 184 einstaklingar, þar af 181 sem voru á barnsaldri er þau segja lækninn hafa brotið á sér, kvartað formlega undan honum og huga að málsókn sem yrði mögulega sú stærsta í máli sem þessu í réttarsögu Frakklands. Le Scouarnec var áður dæmdur í fjögurra mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir vörslu barnakláms árið 2005.

„Þau muna fullkomlega vel eftir því sem þau þurftu að þola, en töluðu aldrei um það af því að þau voru hrædd,“ hefur AFP eftir Fransescu Satta, lögmanni nokkurra þeirra sem saka nú lækninn um barnaníð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert