Kynlífsmyndband skekur frönsk stjórnmál

Benjamin Griveaux, frambjóðandi flokks Macrons Frakklandsforseta, sækist ekki lengur eftir …
Benjamin Griveaux, frambjóðandi flokks Macrons Frakklandsforseta, sækist ekki lengur eftir því að verða borgarstjóri Parísar. Ástæðan er kynlífsmyndband sem nú er í dreifingu. AFP

Benjamin Griveaux, náinn pólitískur bandamaður Emmanuel Macron Frakklandsforseta sem var í framboði til borgarstjóraembættis Parísarborgar, hefur dregið framboð sitt til baka. Ástæðan er kynlífsmyndband sem komist hefur í dreifingu og sagt er vera af honum að stunda sjálfsfróun.

Griveaux, sem er 42 ára gamall og starfaði áður sem talsmaður frönsku ríkisstjórnarinnar, segist draga framboð sitt til baka til að vernda fjölskyldu sína fyrir árásum, en myndbandið var birt á lítt þekktri vefsíðu.

Rússneskur aktivisti, Petr Pavlensky, sem fékk pólitískt hæli í Frakklandi árið 2017 hefur lýst yfir ábyrgð á birtingu myndskeiðsins. Hann segist hafa birt það í þeim tilgangi að varpa ljósi á „hræsni“ Griveaux.

Pyotr Pavlensky, rússneski aktivistinn sem hefur lýst yfir ábyrgð á …
Pyotr Pavlensky, rússneski aktivistinn sem hefur lýst yfir ábyrgð á birtingu myndskeiðsins. AFP

Með myndskeiðinu fylgdi umfjöllun um pólítískar fyrirætlanir borgarstjóraframbjóðandans og þá áherslu sem hann hefði lagt á „fjölskyldugildi“. Það var látið að því liggja að Griveaux væri maðurinn á myndskeiðinu og sömuleiðis fylgdi sögunni að hann hefði sent ungri konu þetta myndband.

Í frétt BBC um málið kemur fram að franskir stjórnmálamenn, hvar í flokki sem þeir standa, hafi fordæmt birtingu myndbandsins, sem kölluð hefur verið árás á Griveaux. Anne Hidalgo, núverandi borgarstjóri í París hefur til dæmis hvatt til þess að fólk sýni einkalífi annarra virðingu.

Fréttaritari BBC í París segir í greiningu sinni að þrátt fyrir að Griveaux hafi ekki verið talinn líklegur til að verða næsti borgarstjóri Parísar, hljóti málið að vera pólitískt vandræðalegt fyrir Macron Frakklandsforseta, vegna náinna tengsla hans við Griveaux.

mbl.is