Evrópa horfi fram á ólýsanlegan harmleik

Myndir í glugga umönnunarheimilis í Glasgow.
Myndir í glugga umönnunarheimilis í Glasgow. AFP

Evrópa horfir fram á ólýsanlegan mannlegan harmleik á umönnunarheimilum sínum. Þetta segir Hans Kluge, yfirmaður Evrópuhluta Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar. Bendir hann á að í sumum löndum sé fjöldi látinna á umönnunarheimilum allt að helmingur þeirra sem látist hafi af völdum kórónuveirunnar.

Á vikulegum blaðamannafundi í dag sagði Kluge að ástandið ylli miklum áhyggjum.

Þann 13. apríl höfðu 245 af 444 andlátum vegna veirunnar í Írlandi, eða 55,2%, tengst umönnunarheimilum. Þann 15. apríl í Frakklandi var hlutfallið 49,4% og þann 16. apríl var hlutfallið 49,1% í Belgíu.

Kluge á vikulegum blaðamannafundi.
Kluge á vikulegum blaðamannafundi. AFP

Brýn þörf á endurhugsun

Care England, stærstu hagsmunasamtök umönnunarheimila í Englandi, sögðu í síðustu viku gera ráð fyrir að um 7.500 manns á umönnunarheimilum þar í landi hefðu látist af völdum veirunnar, eða um fimm sinnum fleiri en opinberar tölur gæfu til kynna.

Kluge segir brýna þörf á að endurhugsa og breyta því hvernig slík heimili störfuðu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert