Kim Jong Un sést loks opinberlega

AFP

Kim Jong Un, leiðtogi Norður-Kóreu, var viðstaddur opnun áburðarverksmiðju í dag, samkvæmt frétt KCNA, ríkisfjölmiðils landsins. En þetta er í fyrsta skipti sem greint er frá því að hann hafi komið fram opinberlega frá því sögusagnir fóru á kreik um miðjan síðasta mánuð að hann væri ekki heill heilsu. AFP-fréttastofan greinir frá.

Í frétt KNCA kom fram að brotist hefðu út mikil fagnaðarlæti þegar leiðtoginn lét sjá sig og hrópað hefði verið margfalt húrra fyrir honum.

Kim hefur ekki sést opinberlega frá því á fundi Kommúnistaflokksins 11. apríl síðastliðinn, en daginn eftir var  hann sagður hafa yfirfarið orrustuþotu.

Ýmsar getgátur hafa verið settar fram um heilsufar hans eftir að hann mætti ekki á hátíðahöld vegna afmælis afa hans, Kim Il Sung, sem er talinn merkilegasti dagur ársins í Norður-Kóreu. Var hann meðal annars sagður hafa gengist undir hjartaaðgerð og væri þungt haldinn, jafnvel látinn.

Öryggisráðgjafi Moon Jae-on, forseta Suður-Kóreu, fullyrti þó fyrir tæpri viku að Kim væri á lífi og við góða heilsu. Það dró aðeins úr vangaveltum um líkamlegt ástand hans.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka