Ráðherrar taki „lúku úr ríkiskassanum“

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, segir þá stöðu upp komna í ríkisfjármálum að ráðherrar taki „lúku úr ríkiskassanum til að setja í sín sérstöku áhugamál“. Hann efast um að álits­gerð fjár­málaráðs muni hafa einhver áhrif á fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar.

Í álits­gerð fjár­málaráðs fyr­ir árin 2025-2029 kemur fram að ríkisútgjöld hafi farið úr hófi fram og verði ósjálfbær ef fram heldur sem horfir. Þá séu tölur um aðhald í ríkisfjármálum ótrúverðugar þar sem þær séu óútfærðar.

Sigmundi finnst ánægjulegt að sjá að fjármálaráð hafi bent á þennan ótrúverðugleika en óttast að það muni samt ekki breyta neinu í hegðun ríkisstjórnarinnar.

Myndaðist nýtt gólf í faraldrinum

Ríkisútgjöld vegna heimsfaraldurs eru, að mati fjármálaráðs, enn til staðar í efnahagskerfinu.

Sigmundur segir að þegar þingið hefði samþykkt aukin útgjöld til þess að að halda samfélaginu gangandi á meðan lokað var fyrir verðmætasköpun hefðu fjármálaráðherra og forsætisráðherra sagt að þegar faraldurinn væri liðinn hjá yrði aftur gripið til sparnaðaraðgerða og skuldir borgaðar sem hefðu safnast upp.

„Það gerðist ekki. Heldur varð bara til nýtt gólf í útgjöldum svo nýtt byggt ofan á það,“ bætir Sigmundur og segir ríkisstjórnina hafa „slegið öll met í ríkisútgjöldum“.

Ríkisstjórn ófær um aðhald

„Þessi ríkisstjórn virðist vera algjörlega ófær um að spara og sýna aðhald,“ segir Sigmundur. Álit ráðsins sé skýrt dæmi um það.

„Þegar menn núna, í fjármálaáætlun, birta áform um aðhald þá er það mjög óljóst aðhald og þetta er dregið mjög vel fram í skýrsluáliti fjármálaráðs.“

Þá segist hann hafa sett spurningarmerki við ýmsa liði áætlunarinnar, til dæmis þann kafla er varðar útlendingamál.

„Þar er því er kastað fram að með minni straumi hælisleitenda munum við spara svo og svo marga tugi milljarða. En það er ekki útskýrt hvernig þessum minnkandi straumi eigi að ná, hvað verði nákvæmlega gert til að ná tökum á landamærunum.“

Ekki til þess fallið að lækka verðbólgu

Heldurðu að þetta sé til þess fallið að lækka verðbólgu og búa til svigrúm fyrir lækkun vaxta?

„Nei, aldeilis ekki,“ svarar hann.

„Verðbólgan á Íslandi hefur verið kynt fyrst og fremst af óhemjuútgjöldum. En það sem mér hefur fundist sorglegast við þetta allt á undanförnum árum er að maður sér ekki almennilega hvað almenningur, samfélagið, hefur fengið fyrir. Þá er mér ítrekað hugsað til áranna þegar við vorum að spara og höfðum eins vit af okkur að reka ríkið með afgangi og vorum á sama tíma í þessum miklu aðgerðum gagnvart slitabúunum. Þá hvað maður velti oft fyrir sér: hvað ef við værum með 30 milljarða í viðbót, hvað væri hægt að gera?“

En nú hafi ríkistjórninni tekist að reka ríkið með viðvarandi halla upp á tugi milljarða. „Og hvernig hefur samfélagið breyst til hins betra? Það er ekki að sjá,“ bæti Sigmundur við.

„Frítt spil fyrir ráðherra“

Heldurðu að þetta muni hafa einhver áhrif á fjármálaáætlunina?

„Nei, þetta mun ekki hafa nein áhrif á fjármálaáætlunina, held ég, í ljósi reynslunnar af þessari ríkisstjórn. Allra síst núna þegar það virðist vera frítt spil fyrir ráðherrana að tilkynna um hin og þessi áform út frá áhugamálum sínum,“ svarar Sigmundur.

„Ráðherrarnir fara hring eftir hring og taka lúku úr ríkiskassanum til að setja í sín sérstöku áhugamál, þannig að það er engin pólitísk sýn eða stefna ríkjandi. Nú er þetta bara spurning um að lifa af í einhverja mánuði í viðbót og eyða peningum á meðan.“

Hann segir að það aðhald sem ríkisstjórnin boðar komi til með að birtast hjá næstu ríkisstjórn, jafnvel þarnæstu, en samt fáist ekki skýr mynd af því hvernig eigi að útfæra það.  „En jafnvel þrátt fyrir það tókst þeim ekki að reikna sig niður í afgang í ríkisfjármálunum fyrr en 2028 eða 2029,“ bætir Sigmundur við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert