Flugritarnir ekki komnir á land

Búið er að finna út hvar flugrita indónesísku farþegaþotunnar sem fórst á laugardag er að finna en ekki hefur tekist að sækja þá. Það verður gert strax í birtingu en komið er kvöld á þessum slóðum.

Talið er að þeir muni geta upplýst um hvað varð til þess að þotan lækkaði hratt flugið og hafnaði í Jövu-hafi skömmu eftir flugtak frá Soekarno-Hatta-flugvellinum í Jakarta síðdegis á laugardag.

Þegar hafa líkamsleifar, flugvélabrak og fatnaður náðst upp úr sjónum. Allir um borð eru taldir af en 62 voru um borð í Boeing 737-500 vél  Sriwijaya Air flugfélagsins er hún fórst.

Meðal farþega voru brúðhjónin Ihsan Adhlan Hakim og Putri en þau voru á leiðinni til borgarinnar Pontianak á eyjunni Borneo. Flugferðin átti að taka 90 mínútur. „Hann hringdi í mig til að láta mig vita að um seinkun væri að ræða á fluginu vegna slæms veður,“ segir bróðir Hakim, Arwin. Hann beið þeirra í Pontianak þar sem átti að halda brúðkaupsveisluna. „Þetta var í síðasta skiptið sem ég heyrði frá honum.“

Hjónin Beben Sofian og Dan Razanah voru einnig um borð. „Þau tóku sjálfu og sendu til barna sinna áður en þau lögðu af stað,“ segir frænka Beben við fréttamann AFP.

Nú verða lífsýni úr ættingjum notuð til að bera saman við líkamsleifarnar til að bera kennsl á þá sem fórust.

Ættingjar þeirra sem voru um borð bíða enn á flugvellinum í Pontianak þar sem þeir bíða fregna. Einn þeirra, Yaman Zai, missti alla fjölskylduna, eiginkonu og þrjú börn, þar á meðal nýfætt barn.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert