Sarkozy hlaut 3 ára dóm í spillingarmáli

Fyrr­ver­andi for­seti Frakk­lands, Nicolas Sar­kozy, var í dag dæmdur í þriggja ára fangelsi, en þar af er refsingu vegna tveggja ára frestað. Ákæran gegn Sarkozy náði til spillingar, en hann var ákærður fyrir að hafa reynt að múta dómara.

Sarkozy var fundinn sekur um að hafa boðið dómaranum aðstoð við að fá veglega stöðu í Mónakó í staðinn fyrir upplýsingar um rannsókn á fjármálum framboðs hans.

Miðað við að refsingu hafi verið frestað um tvo þriðju hluta dómsins þykir ólíklegt að það eitt ár sem standi út af muni þýða að Sarkozy þurfi að taka út fangelsisvist. Í Frakklandi á það venjulega ekki við nema um sé að ræða dóma sem eru tvö ár eða lengri.

Þrátt fyr­ir að vera ekki fyrsti for­set­inn í nú­tíma­sögu Frakk­lands sem þarf að svara til saka í rétt­ar­sal - for­veri hans og póli­tísk­ur leiðbein­andi, Jacqu­es Chirac, var dæmd­ur fyr­ir fjár­drátt - er hann sá fyrsti til að eiga yfir höfði sér ákæru vegna spill­ing­ar.

Sarkozy var handtekinn árið 2014 og fór í yfirheyrslur hjá lögreglu, en það var í fyrsta skipti sem fyrrverandi forseti landsins var handtekinn.

Nicolas Sarkozy mætti í dómshúsið í París í dag.
Nicolas Sarkozy mætti í dómshúsið í París í dag. AFP
mbl.is