Þjóðverjar flykkjast til Mallorca um páskana

Þjóðverjar fjölmenna til Mallorca um páskana.
Þjóðverjar fjölmenna til Mallorca um páskana. AFP

Unnið er að undirbúningi móttöku ferðamanna að nýju á spænsku eyjunni Mallorca þar sem búist er við fjölda sólarþyrstra Þjóðverja um páskana, þrátt fyrir að mælst sé gegn óþarfa utanlandsferðum í Þýskalandi. 

Þýska Robert Koch-sóttvarnastofnunin fjarlægði Mallorca af lista yfir áhættusvæði um helgina. Í framhaldinu tók fjöldinn allur af flugfélögum að skipuleggja flug til og frá eyjunni um páskana – sem hefur löngum verið vinsæll áfangastaður meðal Þjóðverja og stundum kölluð sautjánda ríki Þýskalands. 

„Ásóknin í að fá að verja páskunum í fríi við Miðjarðarhafið er mikið meiri en við bjuggumst við,“ kom fram í tilkynningu frá þýska ferðarisanum TUI í dag. 

TUI, sem býður meðal annars upp á pakkaferðir, hafði bókað fleiri í frí til Mallorca um páskana en á sama tíma árið 2019. Tvöfalda þarf flug til eyjunnar á vegum ferðaskrifstofunnar um páskana og verða þau alls 300. 

Einnig hefur komið fram að þýska flugfélagið Lufthansa hefur tvöfaldað sætaframboð sitt til Spánar um páskana til að mæta eftirspurn. Álíka tilkynningar hafa komið frá dótturfélagi Lufthans Eurowings, sem bætt hefur 300 flugum við sína flugáætlun, og Ryanair sem fjölgað hefur flugum á milli Þýskalands og Spánar um 200 yfir páska. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert