Baðst afsökunar á brotum starfsmanna WHO

Tedros Adhanom Ghebreyesus ávarpar ráðstefnu í gegnum fjarfundarbúnað í dag.
Tedros Adhanom Ghebreyesus ávarpar ráðstefnu í gegnum fjarfundarbúnað í dag. AFP

Framkvæmdastjóri Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar Tedros Adhanom Ghebreyesus hefur beðið aðstandendur og fórnarlömb kynferðisbrota starfsmanna stofnunarinnar í Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó afsökunar eftir að sjálfstæð rannsóknarnefnd kom auga á greinilega bresti í skipulagi og starfsháttum starfsmanna stofnunarinnar.

Brotin voru framin af starfsmönnum sem stofnunin réði á svæðinu en einnig af starfsmönnum í alþjóðlegu teymi stofnunarinnar. Þau áttu sér stað á meðan ebólu-faraldurinn geisaði frá árinu 2018 til 2020. 

Vilja draga gerendur til ábyrgðar

„Það er forgangsmál að gerendurnir séu dregnir til ábyrgðar en ekki komið undan henni,“ sagði Ghebreyesus á blaðamannafundi í dag. 

Í rannsókninni er rakið að ríflega 50 konur hafi sakað heilbrigðisstarfsmenn, flesta á vegum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, um kynferðislega misneytingu. Ýmist með því að bjóða konum vinnu í skiptum fyrir kynlíf eða með því að hóta því að rifta starfssamningum ef þær neituðu að stunda kynlíf með þeim. 

Rannsóknin sýndi einnig fram á það að yfirmenn stofnunarinnar hafi vitað af málinu 6 vikum fyrr en þeir halda nú fram. 

mbl.is