Fangi og fangavörður á flótta áttu í „sérstöku“ sambandi

Vicky White og Casey White.
Vicky White og Casey White. AFP

Fangi sem grunaður er um morð og slapp úr fangelsi í Alabama-ríki átti í „sérstöku sambandi“ við fangavörð sem hvarf með manninum síðastliðinn föstudag. 

Lögreglustjóri Alabama staðfesti þetta við fjölmiðla vestanhafs, en yfirvöld fengu upplýsingar um samband Casey White og Vicky White frá samföngum Casey. Casey er 38 ára og sem áður segir grunaður um morð. Vicky er 56 ára og starfaði sem fangavörður í fangelsinu þar sem Casey var í haldi. Þrátt fyrir að bera sama eftirnafn er parið ekki skylt. 

Parið hvarf eftir að Vicky fylgdi Casey í geðrænt eftirlit sem parið falsaði til að nota sem afsökun. Ekki liggur fyrir hvort að samband þeirra hafi verið rómantískt.

Sást síðast á föstudag

Síðasti vinnudagur Vicky við fangelsið var á föstudaginn, þegar parið hvarf, en hún hafði nýlega sett á sölu heimili sitt. 

Parið sást síðast keyra koparlitaðan Ford Edge með númeraplötu frá Alabama síðdegis á föstudag. Þeirra hefur verið leitað síðan. Talið er að þau hafi undir höndum skotvopn. 

Yfirvöld hafa varað við því að Casey sé „afar hættulegur“, en auk þess að bera líklega skotvopn er hann yfir tveir metrar á hæð og vöðvastæltur. „Hann hefur engu að tapa,“ kemur fram í yfirlýsingu frá lögregluyfirvöldum. 

Casey var í september 2020 ákærður fyrir að hafa stungið til bana hina 58 ára gömlu Connie Ridgeway. Hann hafði þegar verið dæmdur fyrir ofbeldisglæp árið 2015 og afplánaði 75 ára fangelsisdóm þegar hann játaði morðið, en bar fyrir sig sakhæfisleysi vegna geðrofs. Náist hann og verði hann sakfelldur fyrir morðið á hann yfir höfði sér dauðadóm.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert