Varð vitni að árásunum út um eldhúsgluggann

Frá vettvangi í morgun.
Frá vettvangi í morgun. mbl.is/Óskar Hallgrímsson

„Ég náttúrulega bý við hliðina á þessu. Ég varð vitni að þessu út um eldhúsgluggann hjá mér,“ segir Óskar Hallgrímsson ljósmyndari sem búsettur er í miðborg Kænugarðs í Úkraínu skammt frá þar sem sprengingar vegna drónaárása voru í morgun.

„Fyrst heyrðum við loftvarnarbjöllurnar fara í gang klukkan fimm í morgun, mjög snemma. Síðan tíu mínútum eftir að þær þögnuðu þá heyrðum við hljóð eins og í skellinöðru – og síðan mega sprenging. Síðan mjög stutt eftir það heyrum við aðra og þá var verið að skjóta drónana niður með vélbyssum.

Dróni sem notaður var í árásunum í morgun.
Dróni sem notaður var í árásunum í morgun. mbl.is/Óskar Hallgrímsson

Það var verið að skjóta og skjóta og skjóta. Það kom önnur sprenging. Síðan leið smá tími og svo heyrðum við skellinöðru hljóð, vélbyssuhljóð og svo koll af kolli. Ég held það hafi verið sex í heildina sem hafi lent,“ segir Óskar þegar hann rekur atburðarásina. Telur hann að Úkraínumenn hafi náð að skjóta 11 dróna niður í morgun.

„Upplifa þetta stríð í fyrsta skiptið“

Þetta eru ekki fyrstu sprengingarnar sem lenda í nágrenni við heimili ljósmyndarans sem kveðst ekki hafa látið árásirnar á sig fá. Auðvitað sé þó ekki þægilegt að vakna við loftvarnabjöllur og sprengingar snemma morguns – sérstaklega þar sem einungis vika er liðin frá mannskæðri loftárás á borgina.

„Það eru rosa margir sem flúðu á þegar stríðið byrjaði í febrúar og voru núna fyrst að koma til baka og eru búin að vera í Kænugarði í einn eða tvo mánuði og ekkert búið að gerast. Svo allt í einu kemur hérna mjög stór árás og svo strax viku seinna mjög stór árás. Það er fólk sem er að upplifa þetta stríð í fyrsta skiptið. Fólk sem er búið að vera í Úkraínu er – ég myndi ekki segja vant þessu, maður venst aldrei stríði en maður kannski bregst ekki við af sama panikki.“

Hefur ekki áhrif á stríðið í heild sinni

Skemmdir urðu á byggingum þegar drónarnir sprungu og er vitað um tvo íbúa sem eru fastir undir rústum. Ekki hafa fengist upplýsingar um mannfall.

„Í heildina séð truflar þetta stríðið ekki neitt. Það eina sem þetta gerir er að þetta hræðir og hann er að reyna að eyðileggja innviði borgarinnar. Þetta eru bara árásir á borgaralegskotmörk,“ segir Óskar.

„Þetta er stríð og háværasta skotmarkið er höfuðborgin. En Rússar eru að svara fyrir það að þeir standa algjörlega á afturfótunum í þessu stríði.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert