Hættir um leið og hann finnur eftirmann

Elon Musk í febrúar.
Elon Musk í febrúar. AFP/Jim Watson

Elon Musk ætlar að hætta sem forstjóri Twitter um leið og hann finnur eftirmann sinn. Þetta sagði hann eftir að meirihluti þátttakenda í skoðanakönnun sem hann birti vildi að hann segði af sér.

Samfélagsmiðillinn hefur verið í eigu Musks síðan 27. október. Síðan þá hefur hann valdið miklum usla, meðal annars með því að segja upp helmingi starfsliðs síns og loka reikningum blaðamanna, auk þess sem hann hefur verið sakaður um að leggja grundvöll á síðunni fyrir aukna hatursorðræðu.

Höfuðstöðvar Twitter í San Francisco í Kaliforníu.
Höfuðstöðvar Twitter í San Francisco í Kaliforníu. AFP/Constanza Hevia

„Ég mun segja af mér sem forstjóri um leið og ég finn einhvern nógu mikinn kjána til að taka að sér starfið!“ tísti Musk.

Í niðurstöðum könnunarinnar sem voru birtar á mánudaginn kom í ljós að 57 prósent kjósenda (um 10 milljónir atkvæða) vildu að Musk léti af störfum, aðeins nokkrum vikum eftir að hann keypti Twitter fyrir 44 milljarða bandaríkjadala.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert