Tesla hættir framleiðslu í tvær vikur

Tesla segir framleiðslu í Þýskalandi muni stöðvast næstu tvær vikurnar.
Tesla segir framleiðslu í Þýskalandi muni stöðvast næstu tvær vikurnar. AFP

Rafbílaframleiðandinn Tesla hefur tilkynnt að þeir muni hætta að mestu framleiðslu á bílum í verksmiðju sinni í Þýskalandi næstu tvær vikurnar.

Ástæðu þessa segir Tesla vera skort á einingum í farartækin vegna árása Húta á flutningaskip á Rauðahafi.

Röskun vegna árása Húta

Tilkynning Tesla fór í loftið nokkrum klukkustundum áður en Bandaríkin og Bretland tilkynntu um að þau hefðu ráðist á uppreisnarmenn Húta. Voru árásirnar gerðar til að bregðast við þeim röskunum sem orðið hafa á flutningum um heimshöfin vegna árása Húta.

Tesla segir að verksmiðja þeirra muni keyra áfram á fullu afli 12. febrúar.

Lengri siglingaleiðir notaðar

Allt frá því ófriður hófst milli Ísrael og Hamas hafa Hútar ráðist bæði á fraktskip og herskip á Rauðahafi. Þeir segja árásirnar gerðar til stuðnings málstaðs Palestínumanna á Gasa.

Afleiðing þess hefur verið sú að mörg skipafélög forðast leiðina um Súesskurð og fara þess í stað mun lengri leið fyrir strendur Afríku til þess að koma vörum á milli Asíu og Evrópu.

Verksmiðja Tesla hóf starfsemi rétt fyrir utan Berlín árið 2022 og þar starfa um 11.500 manns. Á ári hverju eru framleiddir um 250.000 bílar í verksmiðjunni og er markmið Tesla að tvöfalda framleiðsluna innan skamms.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert