Fyrsti svarti maðurinn sem kjörinn er leiðtogi Wales

Vaughan Gething er fyrsti leiðtogi Wales til að vera svartur …
Vaughan Gething er fyrsti leiðtogi Wales til að vera svartur á hörund. Ljósmynd/Senedd Cymru

Vaughan Gething varð fyrsti svarti maðurinn til þess að verða kjörinn leiðtogi Wales. Var hann kjörinn forsætisráðherra landsins á sjálfstjórnarþingi þess í dag.

Wales er sem fyrr hluti Stóra Bretlands.

Líka fyrstur í Evrópu

Walesbúar telja um þrjár milljónir. Við kjörið í dag tók Gething fram að Wales væri fyrsta þjóð Evrópu til að velja svartan mann sem þjóðarleiðtoga.

„Þetta vekur upp stolt um hversu nútímalegt Wales er orðið en jafnframt er ábyrgðin gríðarleg sem hvílir á mér,“ sagði Gething við sjálfstjórnarþingið, sem heitir Senedd Cymru, upp á velsku.

Gething vann leiðtogakjör í Verkamannaflokknum í Wales nú á laugardag, en Verkamannaflokkurinn fer fyrir stjórninni, sem situr í höfuðstaðnum Cardiff.

Gething fæddist í Sambíu. Faðir hans er hvítur og frá Wales, en móðir hans er svört og frá Sambíu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert