Tillaga um tafarlaust vopnahlé

Blinken ásamt prinsinum Faisal bin Farhan, utanríkisráðherra Sádi-Arabíu.
Blinken ásamt prinsinum Faisal bin Farhan, utanríkisráðherra Sádi-Arabíu. AFP

Bandaríkin hafa lagt fram drög að ályktun hjá öryggisráði Sameinuðu þjóðanna þar sem farið er fram á „tafarlaust vopnahlé í tengslum við lausn gísla” á Gasasvæðinu.

Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, greindi frá þessu.

„Í rauninni þá höfum við ályktun sem við lögðum núna fram hjá öryggisráði Sameinuðu þjóðanna þar sem farið er fram á tafarlaust vopnahlé í tengslum við lausn gísla sem eru í haldi og við vonum innilega að þjóðir muni styðja hana,” sagði Blinken.

Blinken stígur út úr bíl sínum á leið til Egyptalands.
Blinken stígur út úr bíl sínum á leið til Egyptalands. AFP/Evelyn Hockstein

„Ég tel að slíkt myndi senda sterk skilaboð, skýrt merki,” bætti hann í samtali við sádiarabíska fjölmiðilinn Al Hadath í gærkvöldi á meðan á heimsókn hans stóð í Sádi-Arabíu til að ræða stríðið á milli Ísraels og Hamas-samtakanna.

Blinken hitti prinsinn Faisal bin Farhan, utanríkisráðherra Sádi-Arabíu, og ræddi síðan við krónprinsinn Mohammed bin Salman eftir að hann lenti þar í landi í gær. Blinken mun á ferðalaginu einnig heimsækja Egyptaland í dag og síðan Ísrael.

Ferðin er sú sjötta sem Blinken fer í til Mið-Austurlanda síðan stríðið hófst 7. október.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert