Tveimur vélum snúið til Kastrup vegna sprengjuhótana

Hótunin beindist að vél Norwegian Air annars vegar og SAS-vél …
Hótunin beindist að vél Norwegian Air annars vegar og SAS-vél hins vegar. AFP

Tvær flugvélar á leið frá Danmörku til Noregs þurftu að snúa við í miðju flugi og stefna aftur til Kaupmannahafnar vegna sprengjuhótana.

Ein Norwegian Air-vél á leiðinni á Sola-flugvöllinn nálægt Stafangri og önnur SAS-vél á leið til Stafangurs þurftu að snúa við í miðju flugi.

Simon Hansen, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni í Kaupmannahöfn, segir við danska ríkisútvarpið að önnur vélin hafi nú þegar verið rýmd við Kastrup-flugvöll í Kaupmannahöfn og verið sé að rýma hina.

Hann svarar játandi þegar blaðamaður DR spyr hvort hótanirnar hafi báðar komið úr sömu átt.

Hótunin óskýr

„Ég get staðfest það – þau lentu vegna sprengjuhótunar. Farþegar eru nú komnir úr vélinni og allir eru heilir á húfi – án vandræða eða ótta,“ segir Sara Westphal Emborg Neergaard, danskur samskiptastjóri hjá Norwegian Air, í samtali við DR.

Hún segir enn fremur að Norwegian-vélin hafi aðeins verið á lofti í stuttan tíma: „Vélin fór í loftið klukkan 17.25. Klukkan 17.50 var vélin beðin um að fljúga til baka af lögreglu.“

„Ógnin var svo óskýr að þessi vél var líka beðin um að snúa við af öryggisástæðum,“ segir Lise Agerley Kürstein, fjölmiðla- og samskiptastjóri Kaupmannahafnarflugvallar, í samtali við dagblaðið Politiken.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert