ESB breytir reglum um farendur

Björgunarskip kemur til Krítar í dag með fólk sem bjargað …
Björgunarskip kemur til Krítar í dag með fólk sem bjargað var úr bátum á Miðjarðarhafi. Evrópusambandið hefur breytt regluverki um farendur. AFP/Costas Metaaxakis

Evrópuþingið samþykkti í dag breytingar á reglum um farendur sem skerpa verklagsreglur á landamærum Evrópusambandsríkja og deila ábyrgðinni enn fremur milli aðildarríkjanna 27.

Voru nýju reglurnar um áratug í bígerð og náðist breið þverpólitísk samstaða um þær á þinginu. Sagði Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar ESB, um leið og hún lauk lofsorði á nýju reglurnar, að þær tryggðu öryggi evrópskra landamæra jafnframt því að grundvallarréttindi farenda væru fest í sessi.

„Ákvarðanir um það hverjir koma inn í sambandsríkin og undir hvaða kringumstæðum – og að þangað komi manneskjusmyglararnir ekki – verður að vera í okkar höndum,“ sagði forsetinn við sama tækifæri og hvor tveggja, Olaf Scholz Þýskalandskanslari og Dimitri Kairidis, ráðherra innflytjendamála í Grikklandi, kallaði nýja regluverkið „sögulegt“.

Sendir til „öruggari“ landa

Mannúðarsamtök í þágu málefna farenda hafa þó fundið nýju reglunum allt til foráttu, meðal annars að þær gera ráð fyrir hælisleitendabúðum á landamærum sem ætlað er að hýsa hælisleitendur þar til unnt er að senda þá til annarra og öruggari landa – og öruggari innan gæsalappa í málflutningi samtakanna.

Í þeim hópi eru mannúðarsamtökin Amnesty International sem segja ESB styðja á skammarlegan hátt við fyrirkomulag sem sambandið viti vel að muni hafa í för með sér „mannlega þjáningu“ í auknum mæli. Rauði krossinn hvatti hins vegar ríki Evrópusambandsins til þess að tryggja mannúðlegar aðstæður fyrir þá hælisleitendur og farendur sem nýju reglurnar snertu.

Önnur ríki létti á þrýstingnum

Gildistími nýju reglnanna er frá 2026 en fram undan er nú vinna við að útfæra framkvæmd þeirra nánar. Meðal þess sem þær hafa í för með sér er að sá tími, sem líður frá því að umsókn um hæli er synjað og þar til umsækjanda er vísað úr landi, er styttur til muna.

Annar liður reglnanna gerir ráð fyrir að þrýstingnum verði létt af framlínuríkjum á borð við Grikkland og Ítalíu með því að önnur ríki taki við þúsundum hælisleitenda – neiti þau hafi það í för með sér skyldu til að reiða fram fé eða aðrar úrlausnir til framlínuríkjanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert