Samþykktu að kaupa Íslandsvörðuna

Íslandsvarðan hefur staðið við Sæbrautina frá árinu 2011.
Íslandsvarðan hefur staðið við Sæbrautina frá árinu 2011. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Borgarráð Reykjavíkur samþykkti á fundi sínum 22. mars síðastliðinn að kaupa skúlptúrinn Íslandsvörðuna eftir Jóhann Eyfells á 27,5 milljónir króna. Verkið hefur staðið við Sæbraut frá árinu 2011 og er lánssamningur borgarinnar við eiganda verksins útrunninn.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins greiddu atkvæði gegn kaupum á verkinu og lögðu til að í stað þess að borgin kaupi verkið „verði öðrum listamönnum gefið færi á að sýna verk sitt á þessum fjölfarna og eftirsótta stað þar sem Íslandsvarðan stendur nú“. Þá létu fulltrúarnir bóka að forgangsraðað væri í þágu gæluverkefna í stað nauðsynlegrar grunnþjónustu.

Í bókun meirihluta borgarráðs segir að mat safnstjóra Listasafns Reykjavíkur sé að verkið hafi tvímælalaust gildi sem vandað og gott listaverk í opinberu rými borgarinnar og að hann hafi mælt með því að verkið yrði keypt af listamanninum til að „tryggja því sess til framtíðar í borgarlandinu.“

„Sjálfstæðismenn greiða atkvæði gegn varðveislu verksins á núverandi stað, kalla það gæluverkefni og vilja frekar ný verk á staðinn, sem eru þá væntanlega ekki gæluverkefni,“ segir einnig í bókun meirihlutans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert