Næsta vika verður blaut

Engin sól á höfuðborgarsvæðinu virðist vera í kortunum á næstu …
Engin sól á höfuðborgarsvæðinu virðist vera í kortunum á næstu daga. mbl.is/RAX

Veðrið í dag er líkast til með því skásta á höfuðborgarsvæðinu á næstunni samkvæmt veðurfræðingi Veðurstofu Íslands. Útlit er fyrir það að næsta vika verði nokkuð úrkomumikil og enn er engin sól í kortunum.

Á morgun á vindur að færast í aukana og úrkoma með köflum verður víða um land nema á Norðaustur- og Austurlandi þar sem veður heldur áfram að vera bjart og þurrt.

Keppendur í WOW-Cyclothoninu sem hófst í gær mega búast við þokkalegu hjólaveðri um allt land á meðan á keppninni stendur. Á Vestur- og Suðvesturlandi mun veður líkast til lítið breytast, hægir vindar og víða rigning en eftir því sem austar verður farið mun veður skána.

Íbúar höfuðborgarsvæðisins þurfa því að bíða og vonast að minnsta kosti viku í viðbót eftir sumri og sól.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert