Deilt um vernd Elliðaárdals

Dalurinn varð að þrætuepli meðal fulltrúa í borgarráði Reykjavíkur. Meirihlutinn …
Dalurinn varð að þrætuepli meðal fulltrúa í borgarráði Reykjavíkur. Meirihlutinn vill skipulagsbreytingar á svæðinu. mbl.is/Ómar Óskarsson

Fulltrúar í borgarráði deildu um skipulagsmál í Elliðaárdal í gær, en meirihluti Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri-grænna samþykkti tvær tillögur varðandi deiliskipulagsbreytingar í Elliðaárdal og í svæðum í grennd.

Annað málið varðaði auglýsingu á tillögu að deiliskipulagi fyrir Vogabyggð, svæði 5, og hitt breytingu á deiliskipulagi Elliðaárdals.

Gangi ekki frekar á dalinn

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og áheyrnarfulltrúar Sósíalista, Miðflokks og Flokks fólksins lögðu fram bókun vegna beggja tillagnanna þar sem sagði að allar tillögur sem fyrir lægju um afmörkun á skipulagi Elliðaárdalsins þrengdu að „þessu viðkvæma og verðmæta svæði í borgarlandinu“. Fram kom að flokkarnir teldu rétt að vinna að friðlýsingu Elliðaárdalsins samkvæmt náttúruverndarlögum.

„Strax á fyrsta fundi eftir kosningar eru lagðar fram tillögur um að þrengja að Elliðaárdalnum. Það er greinilegt að ekki er vanþörf á að spyrna við fótum. Sem betur fer var því frestað að deiliskipuleggja atvinnuhúsnæði og bílastæði á svæði Elliðaárdalsins og við vonum að því verði frestað þar til búið verður að skipuleggja þarna friðað svæði,“ segir Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins. Hann nefnir að Elliðaárdalurinn sé það „græna svæði“ í borginni sem sé einna minnst raskað.

„Það er mikilvægt að ganga ekki lengra á hann og rétt að friðlýsa hann áður en slíkar tillögur eru lagðar fram,“ segir hann.

Dalurinn þegar verndaður

Í bókun meirihlutans kemur fram að Elliðaárdalurinn sé í aðalskipulagi Reykjavíkur skilgreindur sem borgargarður og settur undir hverfisvernd sem slíkur. Að auki sé skilgreint helgunarsvæði Elliðaáa 100 metrar frá hvorum bakka, þar sé engin uppbygging heimil og leyfi til framkvæmda mjög takmarkað.

„Uppbyggingin við Vogabyggð er mikilvæg fyrir fjölgun íbúða í borginni og er leitt að sjá vilja til að tefja þetta mikilvæga mál. Breytingin sem liggur fyrir hefur engin áhrif á mögulega verndun Elliðaárdalsins og snýr að breyttri afmörkun skipulagssvæðisins til þess að hægt sé að skipuleggja grunnskóla sem þjóna mun hinu nýja hverfi,“ sagði í bókun meirihlutans.

Einnig benti meirihlutinn á að með friðlýsingu Elliðaárdalsins myndi borgin missa yfirráð yfir dalnum og þau færðust til ríkisins.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert