Ekki sofa strax á nýrri dýnu

Varasöm efni geta reynst í snyrtivörum.
Varasöm efni geta reynst í snyrtivörum. mbl.is/Colourbox

Inni á heimilum fólks eru mörg efni sem geta verið skaðleg heilsu fólks og þá sérstaklega barna, sem eru viðkvæmari fyrir efnum í umhverfinu en fullorðnir.

Dæmi um varasöm efni á heimilinu eru arsenik, blý, brómeruð eldvarnarefni, þalöt, paraben og innkirtlatruflandi efni. En skaðleg efni geta fundist meðal annars í húsgögnum, raftækjum, leikföngum, fatnaði, borðbúnaði, snyrtivörum og skartgripum.

Efnin geta meðal annars haft áhrif á hormónastarfsemi, taugakerfi, nýru, frjósemi og verið ofnæmis- og krabbameinsvaldandi. 

Björn Gunnlaugsson, sérfræðingur og teymisstjóri efnamála hjá Umhverfisstofnun, segir eitt það mikilvægasta sem við getum gert til að gera umhverfið heilnæmara, sé að draga úr neyslu, því mikil neysla þýði meiri efni í umhverfinu. Gott inniloft í híbýlum sé mikilvægt. „Mörg þessara efna þurfa bara að fá að gufa upp og fara út í umhverfið en ekki hlaðast upp inni í íbúðinni. Því þá hefur það verri áhrif.“

Eitt sem gott er að hafa í huga, að sögn Björns, er að skoða hvernig dýnur við sofum á. „Dýnur eru svolítið vandamál. Þú getur valið ákveðnar dýnur sem innihalda minna af efnum og það er til vottun fyrir það. Svo höfum líka verið með leiðbeiningar um ef þú ert að kaupa nýja dýnu úr svampi og við kannski fókusum mest á þessar memory foam dýnur. Þegar þær koma heim til þín þá áttu ekki að að byrja að sofa í rúminu fyrstu dagana heldur taka utan af henni og leyfa efnunum að losna úr því áður en þú ferð að koma í nána snertingu við það.“

Miðvikudaginn 20. október fer fram opinn fyrirlestur á vegum Umhverfisstofnunar um skaðleg efni á heimili þar sem sérfræðingar stofnunar fara yfir herbergin á heimilinu, hvaða efni leynast þar og hvað er hægt að gera til að minnka neikvæð áhrif þeirra. Fyrirlesturinn hefst klukkan 12:15 og verður í beinu streymi á vef Umhverfisstofnunar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert