Veitingastaðurinn Jómfrúin, sem hefur boðið landsmönnum upp á smurbrauð, öl og snafs að danskri fyrirmynd í 25 ár, biður Íslendinga afsökunar í facebookfærslu nú í kvöld.
„Fyrir hönd dönsku krúnunnar býður Jómfrúin matargestum upp á einn danskan drykk að eigin vali í hádeginu á morgun, fimmtudag. Svona rétt til þess að róa taugarnar,“ stendur í færslunni.
Má því augljóslega ætla að þar sé veitingastaðurinn að vísa til þess að íslenska karlalandsliðið í handbolta komst ekki áfram í undanúrslit Evrópumótsins í handbolta, sem varð ljóst eftir að Frakkar unnu nauman 30:29-sigur á Danmörku í lokaleik milliriðils 1 í Búdapest í Ungverjalandi í kvöld.
Ísland þurfti að treysta á danskan sigur til þess að komast upp fyrir Frakka í annað sætið á innbyrðis viðureignum.