Sparnaðurinn 17 tonn á dag

Flaggskip orkuskipta á íslensku hafsvæði losar koltvísýring á við sex …
Flaggskip orkuskipta á íslensku hafsvæði losar koltvísýring á við sex einkabíla á ári miðað við einn dag á áætluninni milli Eyja og Landeyjahafnar þegar siglingin er olíudrifin eins og nú er. mbl.is/Óskar Pétur Friðriksson

„Þetta gengur náttúrulega ekki vel. Eftir að bilunin kom upp í þessum streng var okkur gert að hætta að hlaða ferjuna,“ segir Hörður Orri Grettisson, framkvæmdastjóri Herjólfs ohf., í samtali við mbl.is, en Vestmannaeyjaferjan er nú knúin dísilolíu um óákveðinn – og hugsanlega langan – tíma á meðan varaafl stendur undir allri raforkuþörf Eyjamanna.

Eðlilega er það bagalegt að „tákn og fyrirmynd um hvað koma skal í orkuskiptum skipa þurfi að skipta yfir í olíu af ástæðum sem þessum“,. Svo vitnað sé í fundargerð bæjarráðs Vestmannaeyja frá því í fyrradag en þann fund sótti Hörður Orri einmitt og fór yfir stöðuna.

„Nú er búið að vera þannig veður að við höfum ekki getað siglt upp í Landeyjahöfn undanfarna daga og eins og þetta lítur út núna á ferjan eftir að sigla á olíu þangað til gert verður við strenginn sem verður líklega bara einhvern tímann í sumar segja þeir sem til þekkja. Það þarf ákveðið veður og það þarf að leigja þetta skip,“ segir framkvæmdastjórinn og á þar við viðgerðaskip sem kom til landsins við síðustu bilun strengsins árið 2017.

25 milljónir í aukinn kostnað

Kveður hann það bagalegt að flaggskip orkuskipta á sjó við Íslandsstrendur þurfi að skipta yfir í olíu í skugga þess að innviðir séu ekki sterkari en raun ber vitni. „Það eru vonbrigði, klárlega,“ segir Hörður Orri.

Til að setja ástandið í samhengi segir hann Herjólf nota 1.250 kílóvött við siglingu til Landeyjahafnar. „Sú ferð er sjö sjómílur [þrettán kílómetrar], á sömu siglingaleið notum við 420 lítra af olíu svo rekstrarlega skiptir þetta gríðarlegu máli, við erum að tala um aukinn olíukostnað upp á 25 milljónir á mánuði sem við berum sem rekstraraðili. Auðvitað erum við með samning við Vegagerðina og þar þurfum við bara að eiga samtal þegar hlutirnir fara að skýrast,“ heldur hann áfram og kveður um ákveðinn forsendubrest að ræða í núverandi ástandi.

Rekstrarkostnaðurinn er eitt en þegar litið er til þeirra umhverfissjónarmiða sem nú eru ofarlega á baugi hefur Hörður Orri tekið saman lýsandi tölfræði.

„Samkvæmt losunarstöðlum frá Umhverfisstofnun erum við að losa þrettán kíló af koltvísýringi þegar við siglum á rafmagni til Landeyjahafnar en 1.224 kíló þegar við siglum þessa sömu leið á olíu. Við erum með sjö ferða áætlun þarna þannig að sparnaðurinn í koltvísýringslosun við að sigla á rafmagni sjö ferðir, sem sagt fjórtán leggi, er sautján tonn á dag,“ segir Hörður Orði.

Eins og 175 bílar á ári

Til samanburðar nefnir hann að bensínknúinn einkabíll, sem ekið er 15.000 kílómetra á ári, losi á þeim tíma þrjú tonn af koltvísýringi. „Þannig að einn dagur til Landeyjahafnar á olíu losar eins og sex bensínbílar á einu ári og svo getum við reiknað það upp í tölur miðað við að þetta ástand vari lengi og þá losar skipið á mánuði, sé siglt fyrir olíu, það sama og 175 bílar gera á ári,“ kastar hann fram.

Landsnet og HS veitur liggi nú yfir málinu og segir Hörður Orri nákvæmari svör eiga eftir að berast þaðan í fyllingu tímans um hvernig rafmagnsaðföngum Eyjamanna verður háttað næstu mánuði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka