Börn vilja ekki ritskoðun

Lestrarklefinn á Storytel þessa vikuna er tileinkaður hljóðbókum og hljóðbókaseríum fyrir börn. Ævar Þór Benediktsson, einn ötulasti barnabókahöfundur landsins, spjallar við Rebekku Sif um hljóðbókaformið og skrifin. Katrín Lilja og Lilja Magnúsdóttir koma í myndver til að ræða um hljóðbókaseríuna Aha! eftir Sævar Helga Bragason og Sigyn Blöndal, Sögustund með afa eftir Örn Árnason og bókina Kennarinn sem fuðraði upp eftir Bergrúnu Írisi Sævarsdóttur.

Hljóðbókin loðið fyrirbæri

Ævar Þór sendi í haust frá sér sína þrítugustu bók á prenti, Drenginn með ljáinn, en einnig kom nýlega út fyrsta bókin eftir hann inn á Storytel, Hryllilega stuttar hrollvekjur, í hans eigin lestri. „Mér finnst hljóðbókaformið mjög spennandi. Hljóðbókin er orðin svo loðið fyrirbæri. Það er hægt að teygja og tosa formið,“ segir Ævar um hrollvekjandi hljóðbókina þar sem drungaleg hljóð og tónlist eru notuð til að setja tóninn í bæði upphafi og enda bókar.

Það er einnig nákvæmlega það sem er gert er í hljóðbókaseríunum tveimur, Aha! og Sögustund með afa, sem eru til umræðu í myndveri Storytel. „Það er ekki að vera að skafa utan af neinu í þessum ævintýrum. Krakkar eru klárir, þau fatta það um leið og það er verið að reyna að ritskoða,“ segir Lilja en sögurnar sem sagðar eru í Sögustund með afa búa yfir flóknari orðaforða og tiltölulega óritskoðuðum ævintýrum en má lesa í mörgum einfaldari ævintýrabókum. Katrín Lilja og Lilja voru sammála um að seríurnar tvær, sem búa yfir ríkulegum hljóðheimi, hitti vel í mark hjá fjölskyldum.

Ófyrirsjáanleg saga

Fjórða bókin í vinsælli seríu eftir Bergrúnu Írisi, Kennarinn sem fuðraði upp, var einnig til umræðu hjá gagnrýnendunum. Katrín Lilja og Lilja voru sammála um að hér séu á ferðinni þrusugóð og spennandi bók. „Þetta er spennandi saga og algjörlega ófyrirsjáanleg. Hún er spennandi frá upphafi til enda,“ segir Lilja um bókina. „Það skín í gegn hvað hún ber mikla virðingu fyrir sínum lesendum, hún talar aldrei niður til krakkana.“

Að lokum mæla þær stöllur með hljóðbókum sem vert er að hlusta á. Þáttastjórn er í höndum rithöfundarins Rebekku Sifjar Stefánsdóttur sem er einnig aðstoðarritstjóri www.lestrarklefinn.is.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert