Lengsta skráða viðureign við lax

Þrír reyndir veiðimenn tókust á við laxinn og mikill fjöldi ...
Þrír reyndir veiðimenn tókust á við laxinn og mikill fjöldi fólks fylgdist með viðureigninni. Ljósmynd/Aðsend

Lengsta viðureign við lax sem hefur verið staðfest, átti sér stað árið 1866. Við ána North Esk í Skotlandi. Esk á ósa norðan við borgina Dundee og nánast miðja vegu milli hennar og Aberdeen, sem er nokkru norðar.

Colin Wood, mjög reyndur veiðimaður setti í gríðarlegan lax í North Esk um kvöldmatarleitið. Wood tókst á við laxinn í rúmar tíu klukkustundir. Þá var hann orðinn svo þreyttur að veiðifélagi hans A. Bower tók við stönginni í klukkustund á meðan að Wood varpaði mæðinni. Hann tók svo á nýjan leik við stönginni um nóttina og togaðist á við þennan kröftuga fisk fram undir morgun. Þá bar þreyta veiðimanninn ofurliði og annar reyndur veiðimaður Milne liðsforingi tók við stönginni. Það var svo um klukkan 13 sem laxinn hafði betur. Flugan lak úr honum og það var samdóma álit margra þeirra sem fylgst höfðu með viðureigninni að þetta væri a.m.k. sextíu punda lax. Mikill fjöldi áhorfenda var á köflum samankominn að fylgjast með þessum langdregna bardaga manns og fisks.

Fjallað var um þessa viðureign í skoskum blöðum þess tíma. Bæði Dundee Courrier og Warwick Advertiser greindu frá viðureign Woods í 19 klukkustundir og þrjú kortér.

Frá þessu er greint í bókinni The Domesday book og Giant Salmon. Höfundur bókarinnar, Fred Buller telur frásögnina sérlega áhugaverða í því samhengi að hann hefur nokkrum sinnum veitt North Esk ána og segist ekki hafa fyrr eða síðar slegist við jafn sterka fiska og þar má finna.

Sá búnaður sem veiðimenn höfðu til umráða á þessum tíma var að sjálfsögðu fjarri því eins vandaður og hann er í dag. Samt er magnað að þrír reyndir veiðimenn tókust á við þennan lax sem hafði á endanum betur eftir tæpar tuttugu klukkustundir.

Sendu ábendingu um frétt
eða myndir á veidi@mbl.is
mbl.is