Mikið af sjóbirtingi í Eldvatninu

Erlingur Hannesson með fallegan sjóbirting úr Eldvatni. Opnunin fer vel ...
Erlingur Hannesson með fallegan sjóbirting úr Eldvatni. Opnunin fer vel af stað og voru 27 birtingar komnir í bók í gærkvöldi. Ljósmynd/Aðsend

Opnunin í Eldvatni í Meðallandi, skammt frá Kirkjubæjarklaustri fer vel af stað. Áin er ein af þekktari sjóbirtingsám á landinu og er býsna víðfeðm. Vorveiðin gekk vel í upphafi veiðitímans en svo lokar áin þar til haustgöngurnar hefjast. 

Veiði hófst á nýjan leik í Eldvatni síðastliðinn fimmtudag og eru leigutakar meðal veiðimanna. Í gærkvöldi voru komnir á land 27 sjóbirtingar og voru þeir býsna vel haldnir. Erlingur Hannesson er einn af leigutökum og hann sagði í samtali við Sporðaköst að þetta liti mjög vel út. „Fiskurinn er að dreifa sér og við höfum verið að sjá fiski alveg frá Brú og upp í Foss. Við erum sértaklega ánægðir með hvað fiskurinn lítur vel út og er í góðum holdum.“

Birtingurinn í Eldvatni er vel haldinn og stærstu fiskarnir fram ...
Birtingurinn í Eldvatni er vel haldinn og stærstu fiskarnir fram til þessa hafa mælst 85 sentímetrar. Ljósmynd/Aðsend

Fyrir fimm árum hófu núverandi leigutakar að sleppa umtalsverðu magni af seiðum og vonast þeir til að þær sleppingar fari nú að skila sér. „Núna í haust og næsta vor vonumst við eftir að sjá aukningu í veiðinni ef sleppingar hafa tekist eins og við vonum. Þetta er í raun prófasteinninn,“ sagði Erlingur.

Erlingur segir þá hafa séð mikið af fiski og opnunin sé með betra móti. Stærstu fiskarnir fram til þessa eru bolta hrygnur allt upp í 85 sentímetra að lengd. Veiðistaðurinn Villi er eins og oft áður mjög drjúgur en einnig hefur veiðst vel í hyljunum Hundavaði og Þórðarvörðu.

Melalækur er ein af hliðarám Eldvatnsins og taldi Erlingur það góðs viti að efst í læknum veiddist silfurbjartur sjóbirtingur í gær. Veiðitímabilið núna stendur fram til 20. október.

Þær flugur sem hafa verið að gefa best er Dýrbítur svartur og orange og einnig orange Skull.

mbl.is