SVFR tekur Sandá í Þistilfirði á leigu

Jón Þór Ólason formaður stjórnar SVFR þekkir vel til í …
Jón Þór Ólason formaður stjórnar SVFR þekkir vel til í Sandá í Þistilfirði. Hér er hann með tveggja ára lax úr Bjarnadalshyl. Ljósmynd/Aðsend

Stangveiðifélag Reykjavíkur hefur undirritað samning við Veiðifélag Sandár í Þistilfirði þess efnis að félagið taki ána á leigu til langs tíma. Þetta þykja mikil tíðindi því Sandá hefur verið leigð af veiðifélaginu Þistlar frá því á sjöunda áratug síðustu aldar.

Jón Þór Ólason formaður stjórnar SVFR staðfesti þetta í samtali við Sporðaköst.

„Við erum að fara í mikla kynningu á ánni samhliða uppbyggingu á ársvæðinu í samvinnu við landeigendur. Þetta er mjög spennandi verkefni fyrir okkar félagsmenn enda hefur komið í ljós að okkar fólk sækist einna helst eftir þriggja til fimm stanga ám þar sem menn sjá um sig sjálfir. Sandá fellur vel að þessum vilja,“ sagði Jón Þór enn fremur. 

Sandá er eitt best varðveitta leyndarmál í laxveiði á Íslandi. Einungis félagar Þistlanna og þeirra gestir hafa veitt ána frá 1964. Nú mun hún opnast almenningi og viðbúið að eftirspurnin verði mikil.

Elín Björg Harðardóttir með stórlax úr Sandá. Nú ætlar SVFR …
Elín Björg Harðardóttir með stórlax úr Sandá. Nú ætlar SVFR sér að fara í kynningu á ánni og uppbyggingu á aðstöðu við þessa perlu í Þistilfirði. Ljósmynd/Aðsend

Dæmigerð stórlaxaá

Áin fór ekki í útboð heldur sömdu SVFR menn beint við veiðifélagið eftir að ljóst var að ekki yrði samið áfram við Þistla, og tekur við ánni eftir þetta veiðisumar. Veitt er í Sandá á þrjár til fjórar stangir eftir árstíma. Hún er ein af þessum dæmigerðu stórlaxaám á Norð- Austurhorni landsins og þar veiðast iðulega fiskar sem mælast hundrað sentimetrar eða meira.

„Nær ekkert kynningarefni er til um Sandá og því þarf að vinna í markaðssetningu, en þetta er á sem hefur verið á radar margra veiðimanna og það ekki að ástæðulausu. Það má segja að Sandá sé ofurlítið eins og prinsessan í turninum sem hefur verið þar lengi. Nú er komið að því að hún kemur niður og út og hægt að kynna hana fyrir fólki,“ sagði Jón Þór.

Sandá býður upp á fjölbreytta veiðistaði og hér sér yfir …
Sandá býður upp á fjölbreytta veiðistaði og hér sér yfir Ólafshyl sem er uppi á efsta veiðisvæði. Þarna halda gjarnan til stórlaxar. Ljósmynd/Aðsend

Hann hefur veitt Sandá og þekkir vel til hennar og sagðist hann afar ánægður með að samningur væri í höfn.

Ekki fékkst uppgefið hvert leiguverð er, en Jón Þór staðfesti að samningurinn er til langs tíma.

mbl.is