Háfuðu rangan fisk í Leirvogsá

Tuva hin norska með maríulaxinn. Loksins var háfaður réttur fiskur. …
Tuva hin norska með maríulaxinn. Loksins var háfaður réttur fiskur. Leirvogsá er spennandi kostur þessa daga. Þar eru bara tvær stangir. Ljósmynd/Aðsend

Það þarf að leita töluvert mörg ár aftur í tímann til að finna sambærilegt ár miðað við laxagengd í Leirvogsá. Árni Kristinn Skúlason, veiðiumsjónarmaður með ánni, segir óhemjumikið af fiski þegar gengið í hana. „Þó svo að árið í fyrra hafi verið hörmung er gaman að sjá að veiðin er þegar orðin mun betri en var í fyrra og ég hef ekki séð svona mikið af fiski í henni í langan tíma. Hún er hins vegar ekki mikið stunduð þannig að hún á töluvert inni,“ sagði Árni Kristinn í samtali við Sporðaköst.

Settu í rúmlega 30 fiska

„Veiðimenn um daginn settu í sjö laxa á fyrsta hálftímanum. Fiskurinn var mjög tökuglaður en sleit alltaf í stórgrýti. Þarna er erfitt að landa vegna grjóts enda heitir veiðistaðurinn Grjótin. Flestallir fiskarnir tóku púpur og litlar laxaflugur veiddar andstreymis. Þetta voru mjög vanir veiðimenn og hafa þeir aldrei séð annað eins í laxveiði,“ sagði Árni. Þessar tvær stangir settu í þrjátíu laxa á deginum.

Sjóbirtingurinn sem var háfaður fyrir mistök. Laxinn notaði tækifærið og …
Sjóbirtingurinn sem var háfaður fyrir mistök. Laxinn notaði tækifærið og skellti sér niður flúðirnar og slapp. Ljósmynd/Aðsend

Maríulaxinn kom í Snoppu

Árni Kristinn segir sögu af þessum sömu veiðimönnum. Norska veiðikonan Tuva ætlaði sér að ná maríulaxinum í Leirvogsá og það gekk raunar eftir. En fyrst missti hún nokkra. Hér er frásögn af einni viðureigninni sem varð söguleg. „Fiskurinn straujar upp á móti straumi, fer upp Snoppu og rýkur út á undirlínu! Hann sest niður í holu undir bjargi og þá eru góð ráð dýr. Emil mundar háfinn og leggur hann í holuna. En þegar hann ætlar að háfa kemur vandamál – hann veit ekki hvaða fisk hann á að háfa. Holan er full af laxi, Emil er vanur veiðimaður og veit að fiskurinn sem er á er stór, 85 sentímetra að lágmarki! Hann leggur háfinn gætilega niður og háfar hann, allir fagna og Emil lyftir háfnum en þá er vitlaus fiskur í honum. Hann háfaði fallegan sjóbirting í staðinn fyrir laxinn! Því miður þumbast laxinn út og losnar af í flúðunum fyrir neðan.“ Þessi saga frá Árna segir vel til um að það er mikið af fiski í Leirvogsá og á morgunvaktinni í dag taldi veiðimaður að það væru rúmlega 300 fiskar í Snoppu, hann hefur veitt Leirvogsá í mörg ár og hefur aldrei séð annað eins.

Fallegur lax úr Leirvogsá. Tvær stangir settu í þrjátíu laxa …
Fallegur lax úr Leirvogsá. Tvær stangir settu í þrjátíu laxa þennan daginn. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
100 cm Fnjóská Gunnar Jónsson 2. ágúst 2.8.
101 cm Laxá í Dölum Arnór Ísfjörð Guðmundsson 30. júlí 30.7.
102 cm Laxá í Dölum Arnór Ísfjörð Guðmundsson 26. júlí 26.7.
106 cm Nesveiðar Ingvi Jökull Logason 25. júlí 25.7.
102 cm Nesveiðar Kristrún Ólöf Sigurðardóttir 25. júlí 25.7.
102 cm Nesveiðar Nils Folmer Jörgensen 21. júlí 21.7.
100 cm Nesveiðar Anna Margrét Kristinsdóttir 19. júlí 19.7.

Skoða meira