Dramatík og lífshætta í Kerlingarhólma

Gleðin ósvikin, enda maríulaxinn einn af stærstu fiskunum sem veiddust …
Gleðin ósvikin, enda maríulaxinn einn af stærstu fiskunum sem veiddust í Norðurá í Borgarfirði í sumar. Laxinn er ótrúlega bjartur miðað við að hann veiddist 27. ágúst. Ljósmynd/Styr Orrason

Að fá maríulaxinn er magnað augnablik. Bættum við yfirvofandi lífshættu veiðifélagans og hræðslu við að drepa fiskinn. Viðureign við maríulax af stærri gerðinni verður ekki mikið dramatískari.

Þeir félagar Páll Orri Pálsson 21, árs og Styr Orrason voru staddir í Norðurá í Borgarfirði 27. ágúst. Þeir voru hluti af holli sem FUSS var með. Skammstöfunin stendur fyrir Félag ungra í skot- og stangveiði.

Einkrækjan sem Páll Orri valdi og gaf maríulaxinn.
Einkrækjan sem Páll Orri valdi og gaf maríulaxinn. Ljósmynd/Páll Orri

„Við kunnum eiginlega ekki neitt. erum báðir algerir byrjendur. En ég hafði þó farið með pabba í júlí í Hítará og lærði þar að kasta og sá hvernig pabbi barðist við stóran lax. Svo daginn áður en ég fór upp í Norðurá þá kenndi pabbi mér að hnýta á flugu og nokkur svona grunn atriði,“ sagði Páll Orri í samtali við Sporðaköst þegar hann var spurður um þessa dramatísku viðureign við maríulaxinn í Norðurá.

Þegar þeir komu að Kerlingarhólma á síðustu skiptunum á vaktinni spurðu þeir þá sem verið höfðu á undan hvernig flugur þeir hefðu verið að nota. Kom í ljós að þeir höfðu ekki prófað neitt rautt.

„Ég var búinn að læra að skipta um flugu og setti eina rauða. Ég þekki bara svartan Toby og rauðan Frances,“ hlær Páll Orri. „Þannig að ég setti bara rauða Frances. Eftir dálítið langan tíma vildi Styr fá að komast að. Akkúrat þegar ég var að hætta stekkur stór lax fyrir framan mig. Ég sagðist ætla að taka síðasta kastið og þá tók hann. Við náttúrulega trylltumst af gleði og spenningi. Ég var í tuttugu mínútur með hann og var bara orðinn mjög þreyttur í hendinni.“

Páll Orri tekur sjálfu af sér og Styr eftir alla …
Páll Orri tekur sjálfu af sér og Styr eftir alla dramatíkina. Ljósmynd/Páll Orri

Þeir félagar voru ekki með háf, sem er svo sem ekkert verulegt áhyggjuefni á þessum stað. Hins vegar er það þannig að Styr er með fiskiofnæmi og það getur verið svo brátt að hann þarf adrenalín sprautu. „Hann var ekki með sprautupennann á sér, heldur gleymdist hann uppi í veiðihúsi. Hann var samt alveg klár á að sporðtaka laxinn og við ætluðum bara að brenna beint upp í veiðihús og svo á næstu heilsugæslu ef hann fengi kast. Ég var sjálfur í adrenalínsjokki og þarna nýttist mér vel það sem ég hafði séð til pabba þegar hann var glíma við laxinn í Hítará. Styr var mjög hissa á að ég leyfði honum fara fram og til baka og draga út línu. Hann vildi að ég togaði hann bara í land.“

Á endanum lönduðu þeir laxinum sem reyndist vera einn af þeim stærri í Norðurá í sumar. Mældist 87 sentímetrar. Það sem er líka athyglisvert við þessa viðureign er að laxinn tók rauða Frances einkrækju. Þegar Páll Orri talaði við pabba, sinn Pál Ketilsson þá varð gamli hissa að honum hefði dottið í hug að setja undir einkrækju og spurði hvar hann hefði fengið hana. „Nú, hún var í boxinu þínu,“ svaraði Páll Orri.

Þessi saga endaði vel og þeir félagar voru sammála um eftir þetta að nú skyldu þeir af hverju fólk væri tilbúið að borga mikinn pening og fara oft í laxveiði. „Þetta var bara mögnuð stund og það tók okkur langan tíma að koma lífi í laxinn en að lokum synti hann út aftur og það var góð tilfinning að sjá hann fara.“ 

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Vatnsdalsá Erlendur veiðimaður 29. september 29.9.
101 cm Eystri-Rangá Grzegorz Loszewski 27. september 27.9.
105 cm Hvítá við Iðu Katrín Tanja Davíðsdóttir 24. september 24.9.
101 cm Víðidalsá Jón Eðvald Halldórsson 22. september 22.9.
107 cm Grímsá Jón Jónsson 22. september 22.9.
101 cm Miðfjarðará Agnar Sigurjónsson 22. september 22.9.
101 cm Hvítá við Iðu Gunnar Pétursson 20. september 20.9.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert