Sleppingar á laxi farið úr 3% í 61%

Elías Blöndal Guðjónsson, lögmaður og framkvæmdastjóri Landssambands veiðifélaga flutti framsögu …
Elías Blöndal Guðjónsson, lögmaður og framkvæmdastjóri Landssambands veiðifélaga flutti framsögu á streymisfundinum í gær. Ljósmynd/Tjörvi Bjarnason

Elías Blöndal Guðjónsson, framkvæmdastjóri Landssambands veiðifélaga flutti framsögu á streymisfundi mbl.is, Sporðakasta og Veiðihornsins í gær. Þar fór hann yfir stöðuna út frá sjónarhóli Landssambandsins. Hér birtist erindið sem hann flutti óstytt.

„Laxveiði á stöng árið 2019 var sú minnsta í 20 ár og sú sjöunda minnsta síðan 1974. Laxastofnar eru víða taldir eiga undir högg að sækja.

Það er því skiljanlegt að menn spyrji hvað er að gerast í laxveiðinni. Þetta er stór spurning og við henni er ekki til eitt rétt svar. En þessar vangaveltur eru ekki nýjar af nálinni.

Ég held að það sé búið að kenna öllu mögulegu og ómögulegu um lélega laxveiði. Hita sjávar, beitarsvæðum, fæðu laxa í sjó, steinsugum, ísbjörnum, veiðibjöllum, gulöndum, örnum, minkum og selum. Eflaust er þetta bara allt saman rétt. Meira að segja hefur kynjaskepnu eins og örninni verið kennt um; kynskiptifugli sem var einu sinni karlörn en breyttist í kvenkyns örn og varð um leið slyngur laxveiðifugl. Í gegnum aldirnar hefur veiði á laxi á Íslandi farið upp og niður og skýrist það auðvitað af ýmsum orsökum, minni ástundun, kuldatíðum og eldgosum. Þetta er auðvitað ekki fullkomin söguskýring en ég er bara að segja að í gegnum aldirnar hefur laxveiði á Íslandi oft farið upp og niður. En vissulega virðast blikur á lofti, ég er ekki að gera lítið úr því.

Laxastofnar eru víða taldir í ákveðinni hættu og það ber auðvitað að taka alvarlega.

Ég held að engum geti dulist að mannanna verk spila stórt hlutverk í hnignun Atlantshafslaxins og náttúrunnar almennt. Víða hefur verið gengið á búsvæði með raforkuframleiðslu, veiðivötn hafa verið menguð og nú berjast villtir íslenskir laxastofnar við stærstu ógnina hingað til, sjókvíaeldi á norskum eldislaxi. Um stöðuna í laxveiði er ekki hægt að ræða nema nefna laxeldi í sjó. Íslensku laxastofnarnir eiga við nógu margar ógnir að etja svo þessu verði nú ekki bætt við. Það er

veruleg hætta á því að alvarleg og óafturkræf náttúruspjöll verði af völdum sjókvíaeldis í íslenskum fjörðum. Það er óásættanlegt að þegar laxastofnar eru taldir í hættu sé engu að síður lagt á þá álag af mannavöldum og þannig komið í veg fyrir að íslensk náttúra geti þróast á eigin forsendum. Strokulaxar með tilheyrandi hættu á erfðamengun og sníkjudýr munu hafa neikvæð áhrif á íslenska náttúru og þar með talið konung fiskanna. Ábyrgð þeirra sem að þessu standa, og þá sérstaklega stjórnmálamannanna, er mikil. Það er auðvitað erfitt að eiga við stjórnmálamennina sem finnst bara allt í lagi að veita norskum eldisrisum ókeypis aðgang að íslenskri náttúru, sem finnst bara allt í lagi að erfðablöndun við hina villtu íslensku laxastofna eigi sér stað og allt í lagi að eitri sé úðað út í firðina okkar til þess að stemma stigu við laxalúsinni sem þessum iðnaði fylgir.

En menn hafa eins og gengur ýmsar kenningar hverju skal kenna um minnkandi laxveiði og þeirri staðreynd að laxastofnar fara hnignandi. Allir helstu sérfræðingar landsins hafa nú þegar lagt fram sínar tilgátur og hlaupa þær á tugum þúsunda. En það er auðvitað ekki síður mikilvægt að við spyrjum: hvað getum við gert? Hvað getum við gert til þess að hlúa að náttúrunni? Við erum vörslumenn laxastofnanna og okkar hlutverk er að skila henni í hendur komandi kynslóða í sama eða betra ásigkomulagi en þegar við tókum við henni.

Við megum ekki bara einblína á hið neikvæða, nóg er nú víst af því. Það er verið að gera ýmislegt víða um land til þess að sporna við þessari ógnvænlegu þróun sem virðist vera að eiga sér stað. Það er líka margt búið að gera undanfarna áratugi. Veiðirétthafar, leigutakar og veiðimenn hafa verið samstíga í því að vernda laxastofnana og náttúruna.

Margir líta á Ísland sem síðasta vígi Atlantshafslaxins og menn hafa í því samhengi sett á fót sérstakt verndarsvæði á Norðausturhorni landsins og á öðrum stað er verið að leggja niður virkjun og sprengja stíflur og skila svæðinu til náttúrunnar.

Fjöldi laxa sem sleppt er úr stangveiði hefur stöðugt farið vaxandi. Sumarið 2019 var hlutfall veiða og sleppa úr stangveiði á laxi 61% þegar litið er til laxa af náttúrulegum uppruna en árið 1996 var þetta hlutfall kannski um 3%. 78% stórlaxa var sleppt aftur eftir veiði. Þetta er ótrúlega mikil breyting á mjög stuttum tíma.

Í flestum ám hefur veiðimönnum verið gert skylt að sleppa stórlöxum og í sumum ám að sleppa öllum veiddum löxum. Þær eru svo ekki margar veiðiárnar eftir þar sem leyfð er maðkveiði þar sem um laxa af náttúrulegum uppruna er að ræða. Sumstaðar hefur hámarks veiðitími á sólarhring verið minnkaður og stórar túpur og sökkendar bannaðir.

Það hefur ótrúlega mikið gerst í náttúruvernd á Íslandi undanfarna áratugi og aldir. Í íslenskri vatnabók eftir Sölva Björn Sigurðsson segir: ,,Um leið og fyrsta veiðistöngin fór í gegnum íslenska tollinn þá kom líka fyrsta tindósin. En fyrst kom laxakistan og þvernetið í ósnum. Terminator nítjándualdarlaxanna.“ ... Þetta finnst okkur skrítin tilhugsun núna en í stóra samhenginu er ekki langt síðan myndir birtust í fjölmiðlum af stoltum veiðimönnum með blóðuga stórlaxa og hjólbörur þurfti til þess að flytja aflann í jeppann sem sligaðist undan farminum. Þetta er liðin tíð, sem betur fer.

Því miður virðist veiðin í ár ekki hafa verið mikið betri en árið 2019 og líklega eru lélegri göngur að baki. Líklega er endurheimta í sjó meginástæðan en undanfarin ár hafa sýnt miklar sveiflur í endurheimtum. Við getum ekki mikið gert í því annað en hugsa vel um árnar og umhverfi þeirra. Hófsemi sem menn sýna við veiðarnar skiptir miklu máli.

Okkar starf hlýtur að snúa að því að tryggja að gengið sé um árnar af varúð og tryggt sé að þær séu að framleiða gönguseiði eftir því sem líffræðileg geta þeirra stendur til. Við getum ekki haft áhrif á allt. Það er svo margt ófyrirséð sem getur valdið sveiflum í veiði. En okkur ber skylda til þess að reyna að hafa áhrif á það sem við getum haft áhrif á. Stjórnmálamenn geta til dæmis ákveðið að sjókvíaeldi með norskan eldislax í íslenskum fjörðum skuli ekki stundað, veiðimenn geta gætt hófs við veiðar og veiðirétthafar geta gætt náttúrunnar fyrir komandi kynslóðir. Ég veit að veiðimenn og veiðirétthafar munu standa sína pligt en hef því miður ákveðnar efasemdir um stjórnmálamennina almennt.

En... það er gott að það er einn alvöru stjórnmálamaður hér í dag! Hann er stangveiðimaður og er hér kynntur til sögunnar sem fulltrúi hins almenna veiðimanns. Ég þekki allavega engan alvöru stangveiðimann sem er hlynntur eldi á norskum löxum í íslenskum fjörðum.

En þrátt fyrir allt eru stofnar laxfiska á Íslandi í góðu ástandi í flestum ám, þeir skila góðri veiði og verulegum efnahagslegum ábata. Markaður með laxveiðileyfi á Íslandi er öflugur og erlendir veiðimenn hafa mikinn áhuga á því að koma hingað. Aðstæður síðasta sumar voru erfiðar en veiðileyfasalar eiga heiður skilinn fyrir hvernig þeir héldu á þeim málum öllum. Í vor stefndi í verulegt óefni en með öflugum aðgerðum tókst að takmarka tjónið verulega. Það verður áfram eftirspurn eftir laxveiði á Íslandi, bæði innanlands og erlendis frá.

Við verðum að vera samstíga. Berjast gegn þeirri vá sem að laxastofnunum steðjar og beita okkur fyrir því að íslensk náttúra fái að þróast á eigin forsendum. Við verðum líka að vera samstíga í því að tala upp íslenska laxveiði. Við verðum að reyna að venja okkur af því að tala allt niður þegar ekki gengur nógu vel. Það munu koma betri tímar en til þess að svo megi verða verðum við umfram allt að standa vörð um náttúruna sem okkur er falin tímabundin umsjón með. Hinir einstöku íslensku villtu laxastofnar eiga sjálfstæðan tilverurétt sem okkur skylt er að verja.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
103 cm Mýrarkvísl Matthías Þór Hákonarson 30. september 30.9.
103 cm Stóra Laxá Ársæll Þór Bjarnason 29. september 29.9.
101 cm Stóra Laxá Friðjón Mar Sveinbjörnsson 28. september 28.9.
100 cm Víðidalsá Nils Folmer Jörgensen 26. september 26.9.
104 cm Víðidalsá Þorsteinn Sverrisson 25. september 25.9.
101 cm Snæfoksstaðir Sigurður Þór Sigurðsson 23. september 23.9.
107 cm Víðidalsá Kristján Jónsson 23. september 23.9.

Skoða meira