Hvað stóð upp úr í veiðinni 2020?

Ársæll með stærsta lax sumarsins í Stóru Laxá. Hængur sem …
Ársæll með stærsta lax sumarsins í Stóru Laxá. Hængur sem mældist 103 sentímetrar. Lokadagarnir þar voru fordæmalausir svo orð ársins sé notað. Ljósmynd/FMS

Nú styttist í að Sporðaköst á mbl.is leggist í vetrardvala. Ef að líkum lætur mun það gerast hinn 15. október. Áður ætlum við aðeins að fara yfir sumarið og hvað var í gangi. 

Heilt yfir verður að viðurkennast að sumarið flokkast frekar sem vonbrigði en eitthvað annað. Á því eru þó kröftugar undantekningar.

Spáð var góðu smálaxasumri, sérstaklega á Vesturlandi, en því fór fjarri. Þannig voru drottningarnar í Borgarfirði, Norðurá, Þverá/Kjarrá og Grímsá, allar í ströggli. Einn nágranni þeirra, Andakílsá, kom sá og sigraði. Eftir mikið umhverfisslys á vordögum 2017 gaf áin bestu veiðina á Íslandi sumarið 2020. Veitt var á eina tilraunastöng og skilaði hún 661 laxi á einungis 57 dögum. Það er betri veiði á stöng en jafnvel Eystri-Rangá getur státað af. Sleppt var þrjátíu þúsund seiðum í ána og fóru þau mun síðar út en náttúruleg seiði í nágrannaánum. Þar kann að liggja skýringin á betri heimtum í Andakílnum en annars staðar í Borgarfirði.

Lax þreyttur í Blöndu í sumar. Þar var fremur erfitt …
Lax þreyttur í Blöndu í sumar. Þar var fremur erfitt sumar, en Svartá naut góðs af breyttum veiðireglum og jókst veiðin þar mikið. Ljósmynd/Aðsend

Tökuleysi?

Margir töluðu um tökuleysi í laxi. Mátti heyra það hjá mörgum veiðimönnum á ólíkum tíma og í mismunandi ám. Þá var það laxamagn sem menn sáu í ánum ekki að skila sér í þeim veiðitölum sem reyndir veiðimenn áttu von á. Enn er ekki komin fram skýring á þessu en þetta var áberandi í sumar.

Jákvæðu punktarnir

Það voru líka góðar fréttir í sumar. Þar stendur veiðin í Eystri-Rangá upp úr og setti hún met og er það enn að telja þar sem áin er enn opin. Jökla setti líka met og gekk það eftir sem Súddi spáði þar eystra í sumarbyrjun. Hann taldi ljóst að Jökla myndi eiga metár og gekk það eftir.

Hofsá átti gott sumar og fór í fyrsta skipti í sjö ár í fjögurra stafa tölu. Þar hefur verið unnið kröftugt starf í að hlúa að ánni og er það að skila sér.

Haffjarðará var í fantaformi í sumar og gaf góða veiði. Hún nánast tvöfaldaði veiðina frá í fyrra og mikið var af fiski í henni.

Ingólfur Davíð sleppir laxinum. Hann veiddi árið 2006 115 sentímetra …
Ingólfur Davíð sleppir laxinum. Hann veiddi árið 2006 115 sentímetra lax í Vatnsdalsá. En þetta var æðislegt sagði hann. Ljósmynd/Aðsend

Sá stærsti 2020

Stærsti lax sumarsins veiddist í Vatnsdalsá og var þar að verki Ingólfur Davíð Sigurðsson, sem er að veiða stærsta lax á Íslandi í annað skiptið. Og það sem er kannski merkilegt við það er að í bæði skiptin komu þessir stórlaxar hans úr Vatnsdal. Sá í sumar var hvorki meira né minna en 108 sentímetrar, veiddur í Vaðhvammi.

Fleira stóð upp úr. Til að mynda átti Hítará ágæta endurkomu eftir hörmungasumarið 2019. Hún endaði í 503 löxum á móti rétt rúmlega 200 árið áður. 

Auðvitað var fullt fleira sem gerðist á heilu veiðisumri, þannig var sjóbirtingsveiðin mögnuð í vor og ekkert lát á því í haustveiðum.

Samtals veiddust 44 hundraðkallar samkvæmt upplýsingum Sporðakasta. Flestir veiddust í Laxá í Aðaldal á Nessvæðinu eða níu talsins. Víðidalsá var ekki langt undan með átta fiska.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
103 cm Mýrarkvísl Matthías Þór Hákonarson 30. september 30.9.
103 cm Stóra Laxá Ársæll Þór Bjarnason 29. september 29.9.
101 cm Stóra Laxá Friðjón Mar Sveinbjörnsson 28. september 28.9.
100 cm Víðidalsá Nils Folmer Jörgensen 26. september 26.9.
104 cm Víðidalsá Þorsteinn Sverrisson 25. september 25.9.
101 cm Snæfoksstaðir Sigurður Þór Sigurðsson 23. september 23.9.
107 cm Víðidalsá Kristján Jónsson 23. september 23.9.

Skoða meira