Hnúðlaxatíminn runninn upp

Charles Pearson með hnúðlaxinn úr Bíldsfelli í morgun. Gleðin er …
Charles Pearson með hnúðlaxinn úr Bíldsfelli í morgun. Gleðin er lágstemd en það hýrnaði yfir honum nokkru síðar þegar hann setti í og landaði smálaxi. Ljósmynd/RMS

Meira er farið að bera á hnúðlaxinum í veiðiám. Í morgun veiddist hnúðlaxahrygna í Norðurá í Borgarfirði. Veiðimaður sem sendi Sporðaköstum mynd af fiskinum var ekki ýkja hrifinn. Á nánast sama augnabliki lönduðu veiðimenn hnúðlaxi í Soginu fyrir landi Bíldsfells og var það hængur.

Áður hafði frést af hnúðlaxi úr Vatnsdalsá og sást til torfu af þessum nýbúa. Einnig fréttist af einum fiski í lítilli á fyrir austan.

Því hefur verið spáð að mikið gangi af hnúðlaxi í sumar og eru það ekki bara Íslendingar sem hafa áhyggjur af þessari þróun. Þannig birti breska ríkisútvarpið, BBC, frétt í morgun um að von væri á miklu magni af hnúðlaxi í breskar og skoskar ár í sumar og greindi frá því að hann væri þegar farinn að veiðast í Skotlandi.

Hnúðlaxinn úr Norðurá í morgun. Sporðurinn er þakinn doppum.
Hnúðlaxinn úr Norðurá í morgun. Sporðurinn er þakinn doppum. Ljósmynd/GG

Hafrannsóknastofnun hefur hvatt veiðimenn til að greina frá veiði á hnúðlaxi svo hægt sé að fylgjast með þróun mála. Eins og sést greinilega á myndinni af hnúðlaxinum í Norðurá er hann með doppur á sporðinum og er þannig auðgreindur frá öðrum tegundum, svo sem bleikju.

Árið 2017 veiddust nokkrir tugir hnúðlaxa í íslenskum ám. Mikil aukning varð svo árið 2019 þegar á þriðja hundrað slíkir voru skráðir. Hafrannsóknastofnun telur verulegar líkur á að þetta sumar verði enn stærra þegar kemur að hnúðlaxi. Lífsferill hans er tvö ár og staðfest hefur verið hrygning í nokkrum íslenskum ám og að sama skapi er mikið af flökkufiski sem kemur frá Rússlandi og Noregi á ferðinni og getur leitað upp í íslenskar ár í sumar.

Við hvetjum veiðimenn til að láta okkur vita ef þeir veiða slíka fiska.

Þessi hnúðlax veiddist í dag í Eystri-Rangá. Þá er staðfest …
Þessi hnúðlax veiddist í dag í Eystri-Rangá. Þá er staðfest að þeir eru mættir í Sogið, Norðurá, Eystri-Rangá og Vatnsdalinn. Líkast til er þetta rétt að byrja. Ljósmynd/Aðsend

Uppfært klukkan 16:55

Áfram berast fréttir af hnúðlöxum í afla veiðimanna. Sá þriðji sem við fáum mynd af í dag, veiddist í Eystri-Rangá og allt eru þetta fiskar veiddir í dag og er því greinilegt að hann er að mæta í íslensku árnar í bland við hefðbundna laxinn.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
100 cm Laxá í Aðaldal Magni Jónsson 2. ágúst 2.8.
103 cm Selá í Vopnafirði Erlendur veiðimaður 14. júlí 14.7.
102 cm Laxá í Aðaldal Páll Ágúst Ólafsson 13. júlí 13.7.
104 cm Laxá í Aðaldal Aðalsteinn Jóhannsson 8. júlí 8.7.
100 cm Hólsá, Eystri-bakki Ben Sangster 6. júlí 6.7.
100 cm Hólsá, Eystri-bakki Gijs K. Sipestein 6. júlí 6.7.
100 cm Blanda Neil Boyd 6. júlí 6.7.

Skoða meira