Norðurá komin í efsta sæti í laxveiðinni

Gert klárt fyrir löndun í Norðurá. Hún er að gefa …
Gert klárt fyrir löndun í Norðurá. Hún er að gefa mun meiri veiði en í fyrra og verður væntanlega fyrsta áin til að fara yfir þúsund laxa. Ljósmynd/Norðurá

Veiðitölur úr laxveiðiám í síðustu viku eru um margt athyglisverðar. Í efsta sæti trónir Norðurá með 911 laxa. Veiðin þar var rétt um 200 laxar þessa vikuna. Er um að ræða mun betri veiði en í fyrra, því á sama tíma 2020 var Norðurá í 645 löxum. Það stefnir allt í að drottningin í Borgarfirði verði fyrsta áin til að fara yfir þúsund laxa og þar með að toppa veiðitölur síðasta árs. Þá var lokatalan 980 laxar. 

Eystri-Rangá er í öðru sæti með 864 laxa og vikuveiði upp á 372. Samanburður við árið í fyrra, þegar Eystri var með algera bingóveiði, er óhagstæður. 29. júlí 2020 var búið að landa 3.308 löxum á vatnasvæðinu.

Urriðafoss í Þjórsá dettur niður í þriðja sætið með 787 laxa og var vikuveiðin með rólegra móti eða 45 laxar. Urriðafoss er alveg á pari við árið í fyrra, en á sama tíma þá voru komnir 793 laxar.

Þverá/Kjarrá er í fjórða sæti með 736 laxa. Vikuveiðin var tæplega 170 laxar. Þetta er töluverð fjölgun frá í fyrra, þegar svæðið hafði gefið 538. Þverá/Kjarrá vill samt sjá mun hærri tölur en þetta.

Hilmar Sigurjónsson með flotta morgunveiði úr Ytri-Rangá. Þar hefur veiðin …
Hilmar Sigurjónsson með flotta morgunveiði úr Ytri-Rangá. Þar hefur veiðin verið mun dræmari en í fyrra. Ljósmynd/JH

Ytri-Rangá og vesturbakki Hólsár hefur gefið 715 laxa, samkvæmt tölum frá Landssambandi veiðifélaga. Þessar tölur má allar skoða inni á heimasíðunni þeirra, angling.is. 

Ytri-Rangá var með mun betri veiði á þessum tíma í fyrra, eða 1.140 laxa. Vikuveiðin var 331 lax.

Miðfjarðará er næst í röðinni með vikuveiði sem nam 271 laxi. Samtals er Miðfjörðurinn kominn með 634 laxa en var á sama tíma í fyrra með 729.

Haffjarðará er komin með 483 laxa með vikuveiði upp á 106 laxa. Hún var ívið betri í fyrra og var þá með 566 laxa.

Í áttunda sæti er Laxá í Kjós með 412 laxa og vikuveiði upp á 110 laxa. Hún er svipuðu róli og í fyrra en talan var 389 á sama tíma í fyrra.

Langá og Laxá í Leirársveit koma svo nánast jafnar í níunda og tíunda sæti með ríflega 400 laxa og báðar gáfu vikuveiði upp á 100 laxa.

Hægt er að sjá tölur yfir fjölmargar aðrar ár inni á angling.is.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
107 cm Grímsá Jón Jónsson 22. september 22.9.
101 cm Víðidalsá Jón Eðvald Halldórsson 22. september 22.9.
101 cm Víðidalsá Nils Folmer Jorgensen 17. september 17.9.
100 cm Stóra - Laxá Jóhann Gunnar Jóhannsson 13. september 13.9.
100 cm Miðfjarðará Daði Þorsteinsson 12. september 12.9.
102 cm Stóra - Laxá Reto Suremann 10. september 10.9.
103 cm Stóra - Laxá Magnús Stephensen 10. september 10.9.

Skoða meira