Norðurá komin í efsta sæti í laxveiðinni

Gert klárt fyrir löndun í Norðurá. Hún er að gefa …
Gert klárt fyrir löndun í Norðurá. Hún er að gefa mun meiri veiði en í fyrra og verður væntanlega fyrsta áin til að fara yfir þúsund laxa. Ljósmynd/Norðurá

Veiðitölur úr laxveiðiám í síðustu viku eru um margt athyglisverðar. Í efsta sæti trónir Norðurá með 911 laxa. Veiðin þar var rétt um 200 laxar þessa vikuna. Er um að ræða mun betri veiði en í fyrra, því á sama tíma 2020 var Norðurá í 645 löxum. Það stefnir allt í að drottningin í Borgarfirði verði fyrsta áin til að fara yfir þúsund laxa og þar með að toppa veiðitölur síðasta árs. Þá var lokatalan 980 laxar. 

Eystri-Rangá er í öðru sæti með 864 laxa og vikuveiði upp á 372. Samanburður við árið í fyrra, þegar Eystri var með algera bingóveiði, er óhagstæður. 29. júlí 2020 var búið að landa 3.308 löxum á vatnasvæðinu.

Urriðafoss í Þjórsá dettur niður í þriðja sætið með 787 laxa og var vikuveiðin með rólegra móti eða 45 laxar. Urriðafoss er alveg á pari við árið í fyrra, en á sama tíma þá voru komnir 793 laxar.

Þverá/Kjarrá er í fjórða sæti með 736 laxa. Vikuveiðin var tæplega 170 laxar. Þetta er töluverð fjölgun frá í fyrra, þegar svæðið hafði gefið 538. Þverá/Kjarrá vill samt sjá mun hærri tölur en þetta.

Hilmar Sigurjónsson með flotta morgunveiði úr Ytri-Rangá. Þar hefur veiðin …
Hilmar Sigurjónsson með flotta morgunveiði úr Ytri-Rangá. Þar hefur veiðin verið mun dræmari en í fyrra. Ljósmynd/JH

Ytri-Rangá og vesturbakki Hólsár hefur gefið 715 laxa, samkvæmt tölum frá Landssambandi veiðifélaga. Þessar tölur má allar skoða inni á heimasíðunni þeirra, angling.is. 

Ytri-Rangá var með mun betri veiði á þessum tíma í fyrra, eða 1.140 laxa. Vikuveiðin var 331 lax.

Miðfjarðará er næst í röðinni með vikuveiði sem nam 271 laxi. Samtals er Miðfjörðurinn kominn með 634 laxa en var á sama tíma í fyrra með 729.

Haffjarðará er komin með 483 laxa með vikuveiði upp á 106 laxa. Hún var ívið betri í fyrra og var þá með 566 laxa.

Í áttunda sæti er Laxá í Kjós með 412 laxa og vikuveiði upp á 110 laxa. Hún er svipuðu róli og í fyrra en talan var 389 á sama tíma í fyrra.

Langá og Laxá í Leirársveit koma svo nánast jafnar í níunda og tíunda sæti með ríflega 400 laxa og báðar gáfu vikuveiði upp á 100 laxa.

Hægt er að sjá tölur yfir fjölmargar aðrar ár inni á angling.is.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
100 cm Fossá Guðbjörn Gunnarsson 1. október 1.10.
101 cm Víðidalsá Nils Folmer Jörgensen 26. september 26.9.
104 cm Laxá í Dölum Sigurður Smárason 25. september 25.9.
100 cm Miðfjarðará Róbert G. Grímsson 24. september 24.9.
104 cm Stóra Laxá Rúnar Gauti Guðjónsson 23. september 23.9.
102 cm Víðidalsá/Fitjá Nils Folmer Jörgensen 19. september 19.9.
100 cm Eystri-Rangá Hannes Gústafsson 14. september 14.9.

Skoða meira