Missti stórlaxinn en náði honum samt

Helga Kristín missti stórlaxinn þegar átti að fara að mynda …
Helga Kristín missti stórlaxinn þegar átti að fara að mynda gripinn. Hún kastaði sér á hann, Ljósmynd/KIG

Veiðin á norðausturhorni landsins í sumar hefur verið afar róleg. En í slíkum árum verða samt alltaf til minningar sem gleymast ekki. Sölustjóri Strengs, eða Six River Project eins og félagið heitir í dag, átti slíkt augnablik í síðustu viku.

Helga Kristín Tryggvadóttir var við veiðar í Miðfjarðará í Bakkafirði, sem er ein af ánum sem félagið rekur. Þegar komið var að veiðistaðnum Skrúð setti hún undir Silver sheep-tvíkrækju númer átján. Fljótlega reisti hún fisk og sá leikur endurtók sig skömmu síðar. Svo kom að því. Stórlaxinn tók fluguna með látum. Hún vissi strax að hún var með tveggja ára lax.

Allt er gott sem endar vel. Rennandi blautur veiðimaður en …
Allt er gott sem endar vel. Rennandi blautur veiðimaður en alsæl og fékk myndina sína. Ljósmynd/KIG

„Þetta var svaka barátta. Ég var með hann í um fjörutíu mínútur. Fattaði fljótlega að þetta var níutíu plús fiskur. Kristín Ingibjörg Gísladóttir var með mér og sá um háfinn í þessari viðureign. Hún háfaði hann eins og hún hefði aldrei gert annað en að háfa stórlaxa,“ sagði Helga Kristín í samtali við Sporðaköst.

Glæsilegur fiskur og Helga Kristín var alsæl. Það var komið að myndatöku og hún lyfti hængnum.

„Hann var bara svo þungur að ég missti hann og það út fyrir háfinn. Ég varð að fá mynd svo ég bara henti mér á eftir honum og var svo lánsöm að ná honum. Hann mældist 93 og 95 sentímetrar. Málbandið var eitthvað bilað sýndist mér.“ Hún var alsæl, enda hennar stærsti lax til þessa. Þær kórónuðu svo daginn með því að landa 85 sentímetra lúsugri hrygnu sem Kristín Ingibjörg veiddi.

Til Dyer með þriðja hundraðkallinn úr Selá í sumar. Þessi …
Til Dyer með þriðja hundraðkallinn úr Selá í sumar. Þessi tók hitch á Kotlækjarbreiðu. Ljósmynd/SRP

Deginum áður setti veiðimaðurinn Tim Dyer í magnaðan fisk í Selá og landaði honum. Hann mældist sléttir hundrað sentímetrar og veiddist á Kotlækjarbreiðu. Þessi gerðarlegi hængur tók hitch og lét hafa fyrir sér. Þetta er þriðji laxinn úr Selá í sumar sem nær hundrað sentímetrum.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Lagarfljót Jóhannes Sturlaugsson 2. október 2.10.
100 cm Stóra - Laxá Vigfús Björnsson 30. september 30.9.
102 cm Laxá í Aðaldal Aðalsteinn Jóhannsson 19. september 19.9.
103 cm Víðidalsá Rob Williams 17. september 17.9.
101 cm Stóra - Laxá Jim Ray 16. september 16.9.
102 cm Víðidalsá Svanur Gíslason 15. september 15.9.
101 cm Miðfjarðará Stebbi Lísu 14. september 14.9.

Skoða meira