Jón og ástarsambandið við drottninguna

Jón G. Baldvinsson hefur lagt lokahönd á bókina Norðurá enn …
Jón G. Baldvinsson hefur lagt lokahönd á bókina Norðurá enn fegurst áa. Hann hefur veitt ána frá 1967 og gengt nánast öllum störfum sem hægt er við eina veiðiá. Ljósmynd/Eggert Þór

Sá mikli veiðijarl, Jón G. Baldvinsson hefur sent frá sér bókina Norðurá enn fegurst áa. Titill bókarinnar endurspeglar það veiðilega ástarsamband sem höfundur hefur átt í við drottninguna í Borgarfirði.

Bókin er sett fram sem veiðistaðalýsing frá efsta veiðistað Norðurár, niður að þeim neðsta. Samtals um 180 blaðsíður af fróðleik og sögum. Inn í þá lýsingu fléttar Jón frásagnir af ýmsu sem gerðist á viðkomandi stöðum. „Ég styðst mikið við dagbækurnar mínar, sem ég hef haldið óslitið frá því að ég byrjaði að veiða sem ungur maður,“ sagði Jón G. Baldvinsson í samtali við Sporðaköst í tilefni af því að bókin er nú á lokastigum og væntanleg í verslanir á næstu dögum.

„Norðurá veiddi hann fyrst árið 1967 en hún var á þessum árum og allt fram til ársins 2012 flaggskip þeirra ársvæða sem  SVFR hafði á leigu. Sem forystumaður í SVFR kynntist Jón Norðurá og samfélagi veiðiréttareigenda þar. Það var upphafið að góðum vinskap hans við marga veiðiréttareigendur ána og auk þess tók hann algeru ástfóstri við Norðurá. Það ástarsamband varir enn og dvelur Jón stærstan hluta ársins í húsi sínu á bökkum árinnar og veiðir í henni árlega.“ Það er Friðrik Þ. Stefánsson sem svo skrifar um höfundinn í inngangi bókarinnar. Friðrik bendir líka á að um árabil hafi Jón verið einn eftirsóttasti leiðsögumaðurinn við Norðurá, bæði vegna mikillar þekkingar á ánni en ekki síður vegna nærgætni og virðingar þegar hann nálgaðist veiðar við ána og umhverfi hennar.

Bókarkápan og drottningin í bakgrunni. Norðurá er svo sannarlega ein …
Bókarkápan og drottningin í bakgrunni. Norðurá er svo sannarlega ein af fegurri ám sem sögur fara af. Ljósmynd/Eggert Þór/Axel

Aðstandendur bókarinnar halda úti síðu á facebook undir heitinu Norðurá enn fegurst áa. Þá er vefsíða undir sama heiti einnig komin á netið. Á facebook hafa ýmsir veiðimenn tjáð sig um bókina. Bubbi Morthens fagnar bókinni og segir að loksins hafi Jón skrifað bók um ána sína og um leið reist sér sinn bautastein. Hann klikkir út með að lýsa því yfir að bókin sé höfundi sínum til sóma.

Inga Lind Karlsdóttir segir í sinni umsögn, „Óður Jóns til Norðurár hefur leitt til þess að nú get ég ekki beðið eftir því að bruna upp í Borgarfjörð, draga fluguna Stekkur Blá upp úr veiðiboxinu mínu og prófa hana í vel völdum hyljum. Vonandi að kapteinn Geoffrey Aspinall vaki yfir mér.“

Veiðijarlinn í sínu náttúrulega umhverfi á bökkum Norðurár. Jón G. …
Veiðijarlinn í sínu náttúrulega umhverfi á bökkum Norðurár. Jón G. Baldvinsson veiddi Norðurá fyrst árið 1967 og nú síðast í haust. Ný ævintýri bíða Jóns næsta ár á þessum slóðum. Ljósmynd/Eggert Þór

Jón G. Baldvinsson hefur markað spor í laxveiði á Íslandi. Langvarandi stjórnarseta í SVFR og margra ára formennska á þeim bæ gera það að verkum að flestir stangveiðimenn þekkja nafnið Jón G. Baldvinsson. Þá hefur hann tekið virkan þátt í baráttunni fyrir laxinn, bæði gegn sjókvíaeldi og hann lagði þung lóð á vogarskálar Borgarfjarðarlaxins þegar hann tók þátt í viðræðum um netaupptöku í Hvítá.

Jón hefur miklar áhyggjur af framtíð laxins og óttast í raun það versta á næstu áratugum. „Ég óttast mjög um allar íslenskar ár. Ég er skíthræddur um að næstu tuttugu árin munum við sjá stórar breytingar til hins verra. Ég óttast að laxinn gefi eftir í baráttunni við peningavaldið,“ segir hann og vísar þar meðal annars til sjókvíaeldis í opnum sjókvíum sem fjölmargir veiðimenn hafa varað við og hafa miklar áhyggjur af. 

Þegar Jón er spurður um sinn eftirlætis veiðistað í Norðuránni segir hann engan einn standa upp úr. Margir séu sér ávallt ofarlega í huga. „Þó er það helst Kálfhylsbrotið og Breiðan í Stekknum og auðvitað fleiri og fleiri staðir, en mér líður best á Kálfhylsbrotinu,“ segir Jón. 

Þegar kemur að þeirri flugu sem oftast verður fyrir valinu hjá honum þegar komið er að veiðistað þá segir hann það fara eftir aðstæðum en oftar en ekki er það Kolskeggur í hitchi og það smátt.

Það styttist í nýtt veiðitímabil og fyrir þá sem ætla í Norðurá, já og raunar fleiri ár, þá er þessi bók hafsjór af fróðleik og Jón G. Baldvinsson opnar á alla sína vitneskju og uppsafnaða reynslu til áratuga.

Sporðaköst óska Jóni G. Baldvinssyni og aðstandendum bókarinnar til hamingju með verkið.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Vatnsdalsá Erlendur veiðimaður 29. september 29.9.
101 cm Eystri-Rangá Grzegorz Loszewski 27. september 27.9.
105 cm Hvítá við Iðu Katrín Tanja Davíðsdóttir 24. september 24.9.
101 cm Víðidalsá Jón Eðvald Halldórsson 22. september 22.9.
107 cm Grímsá Jón Jónsson 22. september 22.9.
101 cm Miðfjarðará Agnar Sigurjónsson 22. september 22.9.
101 cm Hvítá við Iðu Gunnar Pétursson 20. september 20.9.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert